Brjálað veður á Siglufirði

Mikið óveður var á Sigluf­irði í nótt. Norðan­átt­in var afar sterk og var vind­styrk­ur­inn svo mik­ill að hann hélt jafn­vel vöku fyr­ir íbú­um bæj­ar­ins. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Veður­stofu Íslands fór vind­hraðinn hæst upp í um 50 metra á sek­úndu í vind­hviðum. Svo mik­ill vind­ur var að hurð á Bif­reiðaverk­stæðinu Bás fauk upp og brotnaði í mél

„Við vor­um ræst­ir út í nótt um tvöleytið. Það var senni­lega ein­hver gám­ur sem fauk á hurðina og hún splundraðist al­veg. Þetta er tölu­vert tjón,“ seg­ir Hilm­ar Zoph­on­ías­son hjá Bif­reiðaverk­stæðinu Bás. 

Snjó­titt­ling­ar leituðu skjóls

Héðins­fjörður var ófær og var því eng­inn skóla­akst­ur í dag. Sig­urður Ægis­son, frétta­rit­ari mbl.is á Sigluf­irði, seg­ir að veðrið hafi haft þau áhrif að snjó­titt­ling­ar hafi verið að leita vars. „Þess­ir litlu fugl­ar sem virðast þola allt og setja bara haus­inn upp í vind­inn, þeir voru komn­ir í var,“ seg­ir Sig­urður. Enn er mjög hvasst á Sigluf­irði en að sögn Sig­urðar sést nú á milli húsa. Þannig hafi það ekki verið fyrr í dag. 

Snjóflóðahætta í Ólafs­firði

Vega­gerðin var­ar nú síðdeg­is við snjóflóðahættu í Ólafs­fjarðar­múla. Á Norður­landi eystra er ófært og stór­hríð á flest­um leiðum aust­an Eyja­fjarðar. Snjóþekja og skafrenn­ing­ur er frá Ak­ur­eyri í Dal­vík. Lokað er á Mý­vatns- og Möðru­dals­ör­æf­um og Vopna­fjarðar­heiði. 

Á Aust­ur- og Suðaust­ur­landi eru veg­far­end­ur varaðir við um­ferð hrein­dýra. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert