Mikið óveður var á Siglufirði í nótt. Norðanáttin var afar sterk og var vindstyrkurinn svo mikill að hann hélt jafnvel vöku fyrir íbúum bæjarins. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands fór vindhraðinn hæst upp í um 50 metra á sekúndu í vindhviðum. Svo mikill vindur var að hurð á Bifreiðaverkstæðinu Bás fauk upp og brotnaði í mél.
„Við vorum ræstir út í nótt um tvöleytið. Það var sennilega einhver gámur sem fauk á hurðina og hún splundraðist alveg. Þetta er töluvert tjón,“ segir Hilmar Zophoníasson hjá Bifreiðaverkstæðinu Bás.
Héðinsfjörður var ófær og var því enginn skólaakstur í dag. Sigurður Ægisson, fréttaritari mbl.is á Siglufirði, segir að veðrið hafi haft þau áhrif að snjótittlingar hafi verið að leita vars. „Þessir litlu fuglar sem virðast þola allt og setja bara hausinn upp í vindinn, þeir voru komnir í var,“ segir Sigurður. Enn er mjög hvasst á Siglufirði en að sögn Sigurðar sést nú á milli húsa. Þannig hafi það ekki verið fyrr í dag.
Vegagerðin varar nú síðdegis við snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla. Á Norðurlandi eystra er ófært og stórhríð á flestum leiðum austan Eyjafjarðar. Snjóþekja og skafrenningur er frá Akureyri í Dalvík. Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði.
Á Austur- og Suðausturlandi eru vegfarendur varaðir við umferð hreindýra.