Landsnet kynnir í dag tvær nýjar gerðir háspennumastra og tengivirka. Tilgangurinn er að auka rekstraröryggi mannvirkjanna og tryggja að þau falli betur að umhverfinu.
„Það er krafa um allan heim að fá háspennumöstur sem falla betur að umhverfinu. Við erum að reyna að mæta henni með því að hanna einfaldari möstur sem ekki eru eins áferðarmikil í umhverfinu,“ segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets.
Tvær gerðir eru kynntar í dag, möstur sem geta hentað við mismunandi aðstæður, einpólungur og tvípólungur. Nýju möstrin eru efnisminni, gerð úr rörum í stað prófíla. Þvermál þeirra minnkar og þau mjókka upp og ber því minna við himin. Þá eru brýrnar í tvípólungnum mun efnisminni en í núverandi möstrum.