Ekki bara verið á annan veginn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„En hvað varðar sérstakar umræður þá er nú ekki hægt að segja annað en að flokki háttvirts þingmanns hafi verið ágætlega sinnt á þessu kjörtímabili því að Björt framtíð hefur beðið um tólf sérstakar umræður við ráðherra og fengið átta en þrjár hafa verið kallaðar aftur,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartrar framtíðar.

Guðmundur gagnrýndi ráðherrann þar harðlega fyrir að sinna ekki beiðnum um sérstakar umræður við þingmenn stjórnarandstöðunnar. Sagði hann ýmislegt benda til þess að ákveðinn samskiptavandi væri uppi á Aþingi. Spurði hann ráðherrann hvers vegna hann hefði aðeins orðið við einni beiðni um sérstaka umræðu af sex sem beint hafi verið til hans á kjörtímabilinu.

Forsætisráðherra sagði að beiðni frá Guðmundi um eina sérstaka umræðu við sig lægi fyrir. Sigmundur hafi í einhverjum tilfellum ekki getað tekið þá umræðu á þeim tíma sem Guðmundur hafi viljað en á móti hafi Guðmundur ekki getað rætt málið á tímum sem ráðherrann hafi hentað ráðherranum. Ekki vantaði hins vegar upp á viljann til þess að ræða mál almennt við þingmanninn.

Ekki væri hins vegar óeðlilegt að forsætisráðherra væri í færri umræðum en aðrir ráðherrann þar sem fæst svið heyrðu beint undir hann. Þannig hefði forveri hans ítrekað ekki tekið þátt í neinni sérstakri umræðu heilu misserin þó hún hafi að meðaltali tekið þátt í þremur slíkum á ári. Hins vegar gæti Guðmundur alltaf óskað eftir sérstakri umræðu um sérstakar umræður sem reynt yrði að taka vel í.

Guðmundur sagðist ekki kannast við að hafa verið að hafa verið boðið að taka sérstaka umræðu við forsætisráðherra á öðrum tímum en það væru þá bara orð gegn orði. Sagði hann ráðherrann eiga að sínu mati að fara á undan með góðu fordæmi þegar kæmi að sérstökum umræðum sem verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Aðrir ráðherrar hefðu sinnt því og margir mjög vel.

Sigmundur svaraði því til að Guðmundur hefði farið með rangt mál í fjölmiðlum þegar hann hafi sagt að forsætisráðherra hefði aðeins brugðist við einni af 45 beiðnum um sérstakar umræður. Hið rétta væri að í langflestum tilfellum væri sérstökum umræðum beint til fagráðherrans. Fyrir lægju beiðnir um fjórar sérstakar umræður við hann sjálfan og þar af hefði hann tekið eina. Hann hafði gert þinginu viðvart að hann gæti tekið þessar umræður á öðrum tímum en ekki fengið viðbrögð við því. Það hefði því ekki bara verið á annan veginn.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert