Ofsaveður fyrir norðan

Það er vonskuveður fyrir norðan og ekkert ferðaveður um stóran …
Það er vonskuveður fyrir norðan og ekkert ferðaveður um stóran hluta landsins. mbl.is/Rax

Það er mjög slæmt veður fyrir norðan og á sumum stöðum er ofsarok, að sögn Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Heldur á að draga úr vindhraðanum eftir hádegi. Varað er við snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla.

Skólahald fellur víða niður í grunnskólum í nágrenni Akureyrar. Á vef Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði kemur fram að þar verður engin kennsla í dag vegna veðurs. Hið sama kemur fram á vef Grenivíkurskóla og Þelamerkurskóla í Hörgárdal.

Síðasta klukkutímann hefur mesti vindur mælst á Rauðanúpi á Melrakkasléttu, 32 metrar á sekúndu. Eins er mjög hvasst á Norðvesturlandi og fyrir vestan land.

„Þessu veldur djúp lægð hér yfir sunnanverðu landinu en eftir hádegi fer örlítið að draga úr vindinum og lægðin þokast austur á bóginn. Þannig að í nótt og á morgun verður norðaustan hvassviðri eða stormur á nær öllu landinu,“ segir Helga og bætir við að vindurinn verði þó minni en núna fyrir norðan.

Þessu fylgir snjókoma eða slydda fyrir norðan en verður úrkomulítið suðvestanlands. Hiti er um frostmark víðast hvar á landinu.

Veðrið er gengið niður á Austfjörðum en veðrið er mjög vont á Norðvestur- og Norðurlandi.

Á morgun verður norðvestanstrengur yfir öllu landinu en á laugardag gengur rokið niður.

Hálka og éljagangur er á Sandskeiði, á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka og skafrenningur er á Mosfellsheiði. Snjóþekja og skafrenningur er Lyngdalsheiði. Snjóþekja eða hálka er á láglendi og í uppsveitum á Suðurlandi. Hálkublettir og skafrenningur er á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.

Á Vesturlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir. Hálkublettir eða hálka og óveður er á Snæfellsnesi. Þungfært og skafrenningur er á Bröttubrekku. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði. Ófært er á Fróðárheiði og í Svínadal en þar er stórhríð.

Á Vestfjörðum er ófært og stórhríð á flestöllum leiðum, þó er þungfært eða þæfingsfærð  og óveður á nokkrum leiðum á láglendi. Þæfingsfærð og stórhríð er á Ennishálsi.

Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum. Óveður er í Húnavatnssýslum og á Vatnsskarði. Hálkublettir og stórhríð er á Skagastrandarvegi. Ófært og stórhríð er á Þverárfjalli og Siglufjarðarvegi.

Á Norðurlandi eystra er ófært og stórhríð á öllum leiðum austan Eyjafjarðar. Snjóþekja og skafrenningur er frá Akureyri í Dalvík en þæfingsfærð í Ólafsfjarðarmúla og þar er varað við snjóflóðahættu. Ófært og stórhríð er á Öxnadalsheiði.

Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði.

Á Austurlandi er snjóþekja víðast hvar og sumstaðar skafrenningur. Hálka er á Fagradal. Þæfingsfærð er á Oddsskarði og verið að moka. Ófært er á Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra. Snjóþekja eða hálkublettir og éljagangur er með suðausturströndinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert