Talsverð umræða fór fram á Alþingi í dag um aðkomu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að utanríkismálum Íslands í kjölfar þess að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti þinginu skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál.
Stjórnarandstæðingar gagnrýndu afskipti forsetans í þeim efnum og þar á meðal framgöngu hans á ráðstefnu um málefni norðurslóða í Bodö í Noregi í vikunni þar sem hann lagðist gegn því að ráðstefnan fordæmdi aðgerðir Rússa á Krímskaga og gagnrýndi ennfremur norskan aðstoðarráðherra í því sambandi. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, spurði hver færi með mótun utanríkisstefnu Íslands og hvaða afstöðu ráðherrann hefði til framgöngu forsetans í þeim efnum.
Gunnar Bragi ítrekaði ummæli sem hann hefur áður látið falla að ríkisstjórnin mótaði utanríkisstefnu Íslands en ekki forseti Íslands. Hann hefði hins vegar málfrelsi. Oft væri hann sammála forsetanum en stundum væri hann hissa á ummælum hans og stað og stund sem forsetinn veldi fyrir þau. Hins vegar hefði forsetinn oft talað máli Íslands á erlendri grundu og hefði til þess ýmis tækifæri. Hann væri þó ekki yfir gagnrýni hafinn.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, upplýsti að í utanríkisráðherratíð sinni á síðasta kjörtímabili hefði forsetaembættið leitað upplýsinga til utanríkisráðuneytisins um stefnu ríkisstjórnarinnar og fengið minnisblöð í þeim efnum. Össur sagðist halda að Ólafur hefði lesið þau en efaðist um að hann hefði farið eftir þeim. Lýsti hann þeirri skoðun sinni að forsetinn ætti að fara að utanríkisstefnu stjórnvalda á hverjum tíma.