Skrautlegur bíll stendur fyrir utan félagsheimilið Hvol á Hvolsvelli. Einnig sjást um allt þorp dömur á öllum aldri með sérsaumaðar Hippatöskur og skrautleg armbönd.
Mætti halda að þorpið væri allt að breytast í Woodstock nýlendu. En tilefnið er Góuball hjá kvenfélaginu Einingu annað kvöld. Þemað í ár er hippatíminn.
Þess vegna eru þær búnar að sitja og sauma hippatöskur, mussur, útvíðar gallabuxur, lita boli, gera hippaarmbönd og ennisbönd ásamt mörgu öðru sem tengist þessari tísku.
Þær mættu svo í Kjarval í vikunni og seldu varninginn. Ágóðinn af öllu þessu og dansleiknum rennur svo óskiptur til leikskólans á staðnum. Skrautleg og glaðleg aðferð til fjáröflunar.