Ekkert vit í að leggja í ferðalög

Frá Oddsskarði í gær
Frá Oddsskarði í gær mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Mjög slæmt ferðaveður er á Norður- og Austurlandi og eins á Vestfjörðum. Nánast allar leiðir eru ófærar á þessum slóðum og að sögn lögreglunnar á Akureyri er stórhríð þar og ekkert vit í því að leggja í ferðalög. Veðrið er heldur að ganga niður fyrir vestan en ekki er búið að ryðja þar eftir óveðrið í gær og nótt.

Samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands er spáð norðaustanátt, víða 18-23 m/s en heldur hægari syðra. Snjókoma fyrir norðan og austan, annars úrkomulítið. Hiti 0 til 5 stig við Suðurströndina í dag, annars um eða undir frostmarki.

Búið er að fella niður skólahald við Þelamerkurskóla í Hörgárdal og Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði í dag vegna veðurs og færðar annan daginn í röð.

Ófærð og óveður

Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla er lokaður vegna veðurs og snjóflóðahættu.

Ekki eru komnar upplýsingar um færð á vegum frá Vegagerðinni en í gærkvöldi voru hálkublettir á Bröttubrekku og snjóþekja og skafrenningur á Holtavörðuheiði. Ófært er á Fróðárheiði og í Svínadal en þar er stórhríð. Þungfært og stórhríð er á milli Búða og Hellissands.

„Á Vestfjörðum er ófært og stórhríð á flest öllum leiðum þó er þungfært eða þæfingsfærð  og óveður á nokkrum leiðum á láglendi. Hálkublettir og skafrenningur er á Ennisháls.

Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum. Hálkublettir eða snjóþekja og skafrenningur er í Húnavatnssýslum.Hálka og skafrenningur er á Vatnsskarði.  Hálkublettir og skafrenningur er á Skagastrandavegi. Ófært og stórhríð er á Þverárfjalli, á Siglufjarðarvegi og í Héðinsfirði.

Á Norðurlandi eystra eru ófært og stórhríð á flestum leiðum austan Eyjafjarðar. Ófært og stórhríð er á Öxnadalsheiði. Þæfingsfærð og snjókoma er milli Akureyrar og Dalvíkur en Lokað um Ólafsfjarðarmúla vegna veðurs og snjóflóðahættu. Snjóþekja og stórhríð er við Mývatn og  á Mývatnsheiði. Hálka og skafrenningur er í Aðaldal og í Kinninni. Þungfært og skafrenningur er á Fljótsheiði.

Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði.

Á Austurlandi er víða orðið greiðfært. Hálkublettir og éljagangur eru á Fagradal og hálka á Oddsskarði. Ófært er á Fjarðarheiði og á Vatnsskarði eystra. Greiðfært er frá Reyðarfirði og  með suðurströndinni,“ samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni frá því um tíuleytið í gærkvöldi en starfsmenn Vegagerðarinnar eru nú að kanna færð á vegum og verða fréttir þar að lútandi birtar á mbl.is um leið og þær berast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert