Eldflaug hafnað en Skröggur í lagi

Eldflaug en ekki nafn.
Eldflaug en ekki nafn. AFP

Mannanafnanefnd hefur hafnað kvenkyns eiginnafninu Eldflaug, meðal annars á þeirri forsendu að nafnið geti orðið barni til ama. Nefndin samþykkti hins vegar karlkyns eiginnafnið Skröggur sem hefur þá merkingu samkvæmt orðabók að vera karlfauskur. Fjölmargir úrskurðir voru kveðnir upp undanfarið.

Hvað kvenmannsnafnið Eldflaug varðar segir mannanafnanefnd: „Orðið eldflaug er samnafn sem þarfnast ekki sérstakrar útskýringar, enda vel þekkt í íslensku máli. Allmörg dæmi eru um það í íslensku að samnöfn séu notuð sem mannanöfn. Hins vegar er það verulega sjaldgæft að samnöfn sem merkja manngerð tól og tæki af ýmsu tagi séu notuð með þeim hætti.“

Þá segir að það geti orðið barni til ama þar sem það tilheyrir merkingarflokki sem fá eiginnöfn og engin samsett eiginnöfn hafa tilheyrt hingað til.

En konunni sem vildi heita Eldflaug var þó góðfúslega bent á að hún geti engu að síður notað nafnið: „Benda má á að fólki kann að vera frjálst að nota nafn, t.d. listamannsnafn, á ýmsum vettvangi þótt það sé ekki hið formlega skráða nafn viðkomandi í Þjóðskrá.“

Elvis Aaron loksins möguleiki

Af öðrum nöfnum má nefna Aaron sem var samþykkt sem karlkyns eiginnafn. Þar sem eiginnafnið Elvis var áður samþykkt er því ekkert til fyrirstöðu fyrir æsta aðdáendur konungs rokksins að nefna syni sína Elvis Aaron eftir hetjunni.

Einnig féllst nefndin á karlkyns eiginnafnið Elía. „Tekið skal fram að eiginnafnið Elía á rætur að rekja til Biblíunnar, sbr. Elía spámann, og hefur unnið sér hefð sem eiginnafn á karlmanni í íslenskri tungu,“ segir í rökstuðningnum.

Þá voru karlkynsnöfnin Þórinn, Dalí, Evían, Ásar, Eddi, Marzilíus, Sigurlogi, Dynþór, Fíus, Benvý, Gulli, Sæmi, Reykdal, Skröggur og Auður. Er sérstaklega tekið fram með Auður að það haggi ekki stöðu sama nafns sem kvenmannsnafns.

Nefndin hafnaði hins vegar nöfnunum Krishna, Cesar, Gauji og Fenris. Síðastnefnda nafninu var hafnað á þeirri forsendu að það er eignarfallsmynd nafnsins Fenrir sem þekkt er úr norrænni goðafræði og er á mannanafnaskrá. „Að nota Fenris í nefnifalli stríðir gegn hefð nafnsins Fenrir og er því ekki mögulegt að fallast á það sem eiginnafn.“

Engin íslensk Layla á næstunni

Þegar litið er til kvenmannsnafna þá samþykkti nefndin nöfnin Karmen, Fold, Arja, Sjana, Irmelín, Olivia, Grethe, Dúnna, Alena, Eyborg, Christel, Sigvalda, Varða, Manúella, Elíza, Akira, Ísidóra, Sæbrá, Daría, Rökkva, Íslilja, Ósklín, Andríana, Sigrid, Cathinca og Júní.

Nöfnunum Maxime, Maxine, Layla, Zoë og Alex var hins vegar hafnað. Um nafnið Alex segir: „Eiginnafnið Alex er töluvert algengt í íslensku máli sem eiginnafn karla. Engin dæmi eru hins vegar um að það sé notað sem eiginnafn konu. Það er niðurstaða mannanafnanefndar að nafnið geti einvörðungu talist karlmannsnafn í íslensku máli.“

Þá var millinafnið Sig samþykkt en Gests hafnað.

Loksins er leyfilegt að nefna son sinn Elvis Aaron.
Loksins er leyfilegt að nefna son sinn Elvis Aaron. mbl.is
Eric Clapton söng um Laylu sína, en hún var ekki …
Eric Clapton söng um Laylu sína, en hún var ekki íslensk og verður líklega aldrei. mbl.is/HAG
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert