Hafa hvatt fólk til að sniðganga verslun

Ferðamenn við Geysi.
Ferðamenn við Geysi. Kristinn Ingvarsson

Landeigendafélagi Geysis þykir miður að ferðaþjónustuaðilar, sem eru ósáttir við gjaldtöku af ferðamönnum við Geysisvæðið, láti það bitna á óskildum aðila sem enga aðkomu hafði að ákvörðun um gjaldtökuna.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Landeigendafélaginu.
 
„Nokkuð hefur borið á því að aðilar innan ferðaþjónustunnar hafi hvatt viðskiptavini sína til þess að sniðganga verslun við Geysissvæðið og þeir jafnvel breytt áætunum sínum til að koma í veg fyrir viðskipti við verslunina,“ segir í yfirlýsingunni.

„Fyrirtækið Geysir Shops ehf. á og rekur verslunina við Geysi ásamt verslunum í Reykjavík og á Akureyri. Um er að ræða sjálfstætt einkahlutafélag án nokkurra tengsla við Landeigendafélag Geysis.  Verslunin hefur nú, vegna þrýstings þessara ferðaþjónustuaðila, hætt sölu aðgöngumiða inn á Geysissvæðið. Það er von landeigenda að ferðaþjónustufyrirtækin endurskoði nú afstöðu sína gagnvart versluninni.
 
Gjaldtaka við Geysi hefur í heildina gengið vel og landeigendafélagið hefur þegar samið um viðskipti við rútufyrirtæki og aðra aðila innan ferðaþjónustunnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert