Í dag undirritaði Verkalýðsfélag Akraness nýjan kjarasamning við forsvarsmenn Elkem Ísland og Samtök atvinnulífsins, en eins og fram hefur komið átti verkfall að skella á í verksmiðjunni næsta þriðjudag tækist ekki að semja fyrir þann tíma.
„Formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að það var afar ánægjulegt og mikilvægt að ná að klára undirritun á nýjum kjarasamningi áður en til verkfalls kæmi, enda er það morgunljóst að í verkfallsátökum stendur sjaldan einhver upp sem sigurvegari,“ segir í frétt um málið á vef verkalýðsfélagsins.
Nýi kjarasamningurinn fyrir starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga gildir frá 1. janúar 2014 og í þrjú ár. „Við lausn á þessari deilu var reynt að finna leið sem gæti skilað báðum aðilum ávinningi, þ.e.a.s. bæði fyrirtækinu og starfsmönnum. Eftir mikla yfirlegu og vinnu komust menn að niðurstöðu um lausn sem byggist á því að taka upp nýja bónusa til handa starfsmönnum, sem mun klárlega einnig nýtast fyrirtækinu ef vel tekst til,“ segir í frétt verkalýðsfélagsins.
Þar kemur einnig fram að formaður félagsins sé mjög sáttur með þennan samning, enda sé hann að skila starfsmönnum góðum ávinningi.
Mun formaðurinn fara ítarlega yfir innihald samningsins með starfsmönnum á tveimur kynningarfundum sem haldnir verða þriðjudaginn 25. mars á Gamla Kaupfélaginu kl. 13:00 og 19:00. Hægt verður að kjósa um samninginn að kynningum afloknum.