Vegurinn um Öxnadalsheiði og Víkurskarð hefur verið opnaður. Vegfarendur eru þó beðnir um að sýna sérstaka aðgát þar sem vegurinn er einbreiður.
Öxnadalsheiðin var búin að vera lokuð síðan á miðvikudagskvöld og búast má því við mikilli umferð um heiðina. Fjölmargir hafa setið fastir vegna lokunarinnar og að sögn starfsmanns N1 í Varmahlíð voru um 250 manns þar inni að bíða þegar mest var. Þeir sem lengst biðu voru þar í um tvær til þrjár klukkustundir. Hann sagði flesta hafa verið vera pollrólega þótt unglingar og yngri ferðalangar hafi margir verið orðnir nokkuð óþreyjufullir.
Þokkaleg færð er á Norðurlandi vestra nema hvað enn er ófært á Siglufjarðarvegi og Þæfingsfærð er frá Hofsósi út í Fljót. Ólafsfjarðarmúli er nú opinn en verið er að moka snjóflóðið á Grenivíkurvegi. Þá opnast Víkurskarð alveg á næstunni. Þæfingsfærð er með ströndinni frá Húsavík til Vopnafjarðar. Ekki verður opnað yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi í dag.
Veður hefur skánað mikið á vestanverðu landinu en áfram er norðan hvassviðri, snjókoma og skafrenningur um landið norðaustanvert og á Austurlandi fram eftir degi.
Það eru hálkublettir á Hellisheiði en hálka í Þrengslum, á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði en hálka eða hálkublettir eru á örfáum öðrum vegum á Suðurlandi. Hálka eða hálkublettir eru á köflum á Vesturlandi.
Á Vestfjörðum er nú orðið opið um Djúp og suður um Strandir. Ófært er hins vegar yfir Þröskulda og eins á Klettshálsi og vestur að Brjánslæk.
Slæmt veður er á Austurlandi og víða snjóþekja, þæfingur eða jafnvel þungfært auk þess sem ófært er við Heiðarenda, á Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra. Greiðfært er frá Djúpavogi suður um.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að áætlað sé að moka alla daga ef veður leyfir en stytta þjónustutíma og miða hann við að opið sé milli klukkan 13 og 17.
Vegna vinnu við endurnýjun á rafkerfum í Múlagöngum má búast við umferðartöfum þar yfir nóttina, frá kl. 21:00 til kl. 06:00 að morgni. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar og virða hraðatakmarkanir meðan á framkvæmdum stendur.