250 manns biðu í Varmahlíð

Öxnadalsheiði
Öxnadalsheiði mbl.is/Gúna

Vegurinn um Öxnadalsheiði og Víkurskarð hefur verið opnaður. Vegfarendur eru þó beðnir um að sýna sérstaka aðgát þar sem vegurinn er einbreiður.

Öxnadalsheiðin var búin að vera lokuð síðan á miðvikudagskvöld og búast má því við mikilli umferð um heiðina. Fjölmargir hafa setið fastir vegna lokunarinnar og að sögn starfsmanns N1 í Varmahlíð voru um 250 manns þar inni að bíða þegar mest var. Þeir sem lengst biðu voru þar í um tvær til þrjár klukkustundir. Hann sagði flesta hafa verið vera pollrólega þótt unglingar og yngri ferðalangar hafi margir verið orðnir nokkuð óþreyjufullir.

Færð og aðstæður

Þokkaleg færð er á Norðurlandi vestra nema hvað enn er ófært á Siglufjarðarvegi og Þæfingsfærð er frá Hofsósi út í Fljót. Ólafsfjarðarmúli er nú opinn en verið er að moka snjóflóðið á Grenivíkurvegi. Þá opnast Víkurskarð alveg á næstunni. Þæfingsfærð er með ströndinni frá Húsavík til Vopnafjarðar. Ekki verður opnað yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi í dag.

Veður hefur skánað mikið á vestanverðu landinu en áfram er norðan hvassviðri, snjókoma og skafrenningur um landið norðaustanvert og á Austurlandi fram eftir degi.

Það eru hálkublettir á Hellisheiði en hálka í Þrengslum, á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði en hálka eða hálkublettir eru á örfáum öðrum vegum á Suðurlandi. Hálka eða hálkublettir eru á köflum á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er nú orðið opið um Djúp og suður um Strandir. Ófært er hins vegar yfir Þröskulda og eins á Klettshálsi og vestur að Brjánslæk.

Slæmt veður er á Austurlandi og víða snjóþekja, þæfingur eða jafnvel þungfært auk þess sem ófært er við Heiðarenda, á Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra. Greiðfært er frá Djúpavogi suður um.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að áætlað sé að moka alla daga ef veður leyfir en stytta þjónustutíma og miða hann við að opið sé milli klukkan 13 og 17.

Vinna í Múlagöngum

Vegna vinnu við endurnýjun á rafkerfum í Múlagöngum má búast við umferðartöfum þar yfir nóttina, frá kl. 21:00 til kl. 06:00 að morgni. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar og virða hraðatakmarkanir meðan á framkvæmdum stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert