Ingólfur Sigurðsson knattspyrnumaður var aðeins fimmtán ára þegar hann greindist með geðsjúkdóm, kvíðaröskun. Hann var þá á mála hjá hollenska félaginu sc Heerenveen en þurfti fljótlega að snúa heim vegna veikinda sinna. Í tvö önnur skipti reyndi hann sig við atvinnumennsku í greininni en það fór á sama veg.
Lengi vel hélt Ingólfur veikindum sínum leyndum, meðal annars af ótta við viðbrögð knattspyrnusamfélagsins, en stígur nú fram og segir sína sögu í ítarlegu samtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
„Knattspyrna er í eðli sínu karllægt sport. Þeir sterkustu lifa af,“ segir Ingólfur. „Með því að ljóstra því upp að ég sé haldinn geðsjúkdómi þykir örugglega einhverjum ég vera að gefa höggstað á mér. Það staðfestir meira en allt annað að þörf er á þessari umræðu. Knattspyrnusamfélagið hefur alltof mikla tilhneigingu til að steypa alla í sama mót. Leikmenn eiga bara að bíta á jaxlinn, sama hvað bjátar á, og fara áfram á hnefanum. Auðvitað hentar það sumum – en öðrum ekki. Knattspyrnumenn eru misjafnir, eins og annað fólk. Hvers vegna mega þeir ekki blómstra á eigin forsendum? Eiga ekki allir rétt á því að þeim líði vel?“
Ingólfur er nú 21 árs gamall og leikur í sumar með Þrótti í 1. deildinni hér heima. „Undanfarna mánuði hefur mér liðið mjög vel. Veikindin hafa ekkert látið á sér kræla,“ segir hann. „Á sama tíma hef ég verið mun opnari gagnvart mínum eigin tilfinningum en áður og um leið veikindunum. Lengi vel gat ég ekki hugsað mér að tala um þau við aðra en lækna, sálfræðinga og mína nánustu en núna þykir mér ekkert óþægilegt að standa berskjaldaður með þessum hætti. Eiginlega bara sjálfsagt. Kvíðaröskunin er partur af mér, hvort sem mér líkar það betur eða verr. Þetta eru spilin sem mér eru gefin í þessu lífi og undir mér komið að vinna úr þeim.“
Það er ekki auðvelt fyrir tæplega tvítugan pilt að koma í þriðja sinn heim úr atvinnumennsku í knattspyrnu. Það vissi Ingólfur fyrir og fékk fljótlega staðfestingu á því. „Umræðan var þung eftir að ég kom heim og inntakið í henni einfalt: „Þessi gæi er bara hrokafullur og snarruglaður! Nú er hann alveg búinn!“ Ég fann fyrir einlægri ánægju hjá sumum með það að mér hefði mistekist. Ég lét þetta samt ekki trufla mig, hlakki í einhverjum yfir óförum mínum er það bara þeirra mál. Ég tók illt umtal inn á mig til að byrja með en er löngu orðinn ónæmur fyrir því. Það er í raun býsna merkilegt í ljósi þess að ég er mjúkur og viðkvæmur maður að eðlisfari. Að ekki sé talað um minn sjúkdóm. Ég er stoltur af því að hafa náð að útiloka Gróu á Leiti úr mínu lífi.“