Meirihluti háskólakennara greiddi atkvæði með verkfalli í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem fram fór í síðustu viku. Á kjörskrá voru 920, atkvæði greiddu 606 og af þeim sögðu 82,8 prósent já við verkfalli ef ekki tekst að ná viðunandi kjarasamningum. Ef af verður munu kennarar leggja niður störf á hefðbundnum próftíma, frá 25. apríl til 10. maí.
Jörundur Guðmundsson, formaður Félags háskólakennara, segir það vera undir stjórn Félags háskólakennara komið að ákveða hvort verkfallsvopninu verði beitt. „Við munum nú funda með samninganefnd ríkisins og tökum ákvörðun í framhaldinu um hvort grípa þurfi til verkfalls eða ekki,“ segir hann og væntir þess að fundurinn verði strax eftir helgi.
„Það er ómögulegt að segja hvort af verkfallinu verði. Það myndi hafa mjög alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir nemendur, skólann sjálfan og okkar starfsfólk. Það verður allt gert til þess að reyna að forðast það.“
Jörundur segir háskólakennara hafa dregist talsvert aftur úr sambærilegum hópum í öðrum skólum og stéttum sem metnar eru til starfa með svipuðum hætti og háskólakennarar. „Háskólinn og starfsfólk hans hefur tekið á sig mikinn niðurskurð eftir hrunið og við teljum tíma til kominn að það verði leiðrétt.“