Segir ráðherra fara með rangt mál

Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs. Wikipedia/GAD

Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, segir að starfsbróðir hennar, Sigurður Ingi Jóhannsson, fari með rangt mál í grein sem birt var í Morgunblaðinu eftir hann fyrir viku. Hún skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún fer yfir sjónarmið Norðmanna í makríldeilunni.

„Vðbrögð hafa verið margháttuð og stundum hefur verið tekið djúpt í árinni eftir að Norðmenn, Evrópusambandið og Færeyingar gerðu með sér þríhliða samning um skiptingu makrílkvóta og umsjón með stofninum. Margir hafa komið með ónákvæmar fullyrðingar og sumar þeirra eru beinlínis rangar. Það á því miður líka við um grein kollega míns Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra í Morgunblaðinu á laugardaginn var. Þess vegna er knýjandi nauðsyn að greiða úr þeim misskilningi sem til staðar er og að gera grein fyrir sjónarmiðum Norðmanna í málinu.

Því hefur í fyrsta lagi verið haldið fram að Norðmenn hafi aldrei viljað ganga til samninga við Íslendinga og að við höfum jafnvel unnið að því að halda Íslendingum utan við þá. Þetta er alrangt. Markmið okkar hefur þvert á móti verið það að ná samningum sem tryggja heildstæða umsjón með makrílstofninum og sem því næðu til allra strandríkjanna, Ísland er þar með talið. Í þríhliða samningnum er auk þess gert ráð fyrir aðkomu annars strandríkis og það höfum við tjáð Íslendingum á ótvíræðan hátt, bæði með beinum samskiptum við yfirvöld á Íslandi og með fréttatilkynningum.

Hvorki við né aðrir erum þó tilbúin til þess að ganga að samningum, hvað sem þeir kosta. Í huga norskra stjórnvalda er það lykilatriði að skipting sameiginlegra stofna byggist á viðurkenndum meginreglum á borð við svæðaskiptingu til lengri tíma litið, fiskveiðum í sögulegu samhengi, vísindalegum grundvelli og gagnkvæmri virðingu fyrir því að aðrir séu háðir veiðunum. Þetta eru forsendurnar fyrir afstöðu Norðmanna í samningaviðræðunum. Við höfum í ljósi þessara meginreglna teygt okkur býsna langt í samningaviðræðunum í vetur.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segir eftirfarandi í grein sinni: „Staðreyndir málsins eru þær að makríll gengur í ógnarmagni inn í íslenska lögsögu, hér eru beitarsvæði hans, þyngdaraukning er gríðarleg og hann étur fæði frá öðrum stofnum á okkar miðum með tilheyrandi afleiðingum.“ Orðalag af þessu tagi gæti því miður auðveldlega gefið ranga mynd af stöðunni. Íslendingar hafa meðal annarra tekið þátt í vísindaleiðöngrum sem reyndar sýna að ákveðinn hluti makrílstofnsins leitar inn í íslenska fiskveiðilögsögu og þess vegna eru Íslendingar nú viðurkenndir sem aðilar að makrílsamningum strandríkja. Þó leita aðeins tæplega 20% stofnsins inn í íslenska fiskveiðilögsögu og það aðeins nokkra mánuði á ári. Þetta þýðir að stofninn er á íslensku svæði sem nemur 5-6% á ársgrundvelli. Við höfum samþykkt að fara langt fram úr þeim meginreglum, sem að jafnaði er miðað við hvað skiptingu varðar, til þess að reyna að ná samkomulagi og því boðið Íslendingum langtum stærri hluta en flökkumynstur stofnsins ætti að segja til um. Í því ljósi er undarlegt að heyra því haldið fram að við viljum ekki semja við Íslendinga.

Ég tek eftir því að Íslendingar hafa orðið fyrir vonbrigðum vegna þess að ESB hafi rofið samning sem þessir tveir aðilar gerðu um skipti og veiðikvóta. Þessi svonefndi „samningur“ var gagnkvæmt samkomulag Íslendinga og ESB sem var gert án þess að láta okkur vita og hefði mögulega getað haft alvarleg áhrif á okkar hluta kvótans. Okkur bárust fyrst fregnir af þessu með upplýsingum sem lekið var til fjölmiðla. Í því samhengi er undarlegt að heyra að það séu Norðmenn sem hafi „leikið ljótan leik“.

Grein Aspaker er hægt að lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert