Stórar auglýsingar með slagorðum gegn hvalveiðum Íslendinga má nú sjá á strætisvögnum í Boston í Massachusetts í Bandaríkjunum.
Fjöldi félagasamtaka um dýravernd hefur tekið höndum saman um að reka baráttu gegn hvalveiðum Íslendinga og er hvatt til þess að íslenskt sjávarang sé sniðgengið á meðan viðkomandi útflutningsfyrirtæki hafi tengsl við hvalveiðar.
Samtök á borð við Greenpeace, Animal Welfare Insitute og Whaleman standa baki auglýsingaherferðinni. Auglýsingarnar eru m.a. birtar á strætisvagni sem gengur um miðborg Boston, milli alþjóðaflugvallarins og South Station, aðallestarstöðvar borgarinnar.
Rétt hjá á sömu lestarstöð má svo sjá auglýsingar frá Icelandair, að sögn Egils Almars Ágústssonar, háskólanema í Boston, sem átti ferð um lestarstöðina í gær.
„Veistu hver veiddi sjávarfangið þitt?“ er spurt á auglýsingaborðunum og vísað í vefsíðu herferðarinnar, Don't Buy From Icelandic Whalers.
Þar eru Hvalur hf., HB Grandi og Iceland Seafood International nefnd sérstaklega sem fyrirtæki sem verði að sniðganga þar sem þau tengist hvalveiðum Íslendinga.
„Það eru bein tengsl milli íslenska hvalveiðiiðnaðarins og sterkra afla í íslenskum sjávarútvegi. Fiskur sem veiddur er við Ísland af fyrirtækjum með tengsl við hvalveiðar er fluttur til Bandaríkjanna, bæði beint og í gegnum þriðja aðila,“ segir á vefsíðu herferðarinnar.
„Í Evrópu hafa félagasamtök um dýravernd hvatt almenning til þess að kaupa ekki fisk af hvalveiðimönnum, til að setja þrýsting á sjávarútvegsfyrirtæki og endursöluaðila um að tryggja að þeir kaupi ekki af íslenskum fyrirtækjum með tengsl við hvalveiðar. Við ætlum nú að færa þessa baráttu til Bandaríkjanna.“
Samtökin fagna því nú sérstaklega að bandaríska fyrirtækið High Liner Foods skuli hafa tekið það skref að hætta viðskiptum við Granda nema tengslin við hvalveiðar verði slitin.
HB Grandi sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem haft var eftir Vilhjálmi Vilhjálmssyni, forstjóra HB Granda, að hann sjái ekki ástæðu til að tjá sig í fjölmiðlum um málið.
Vilhjálmur segir birgðir afurða HB Granda í lágmarki og hefur ekki áhyggjur af sölu þeirra.
Sjá fyrri fréttir mbl.is um málið: