Eftir níu daga hlé frá sprengingum í Vaðlaheiði var byrjað á nýjan leik að sprengja í gær, eftir að lokið var við umfangsmikla bergþéttingu í göngunum. Loka þurfti heitavatnsæð sem fannst í göngunum, með rúmlega 50 gráðu heitu vatni.
Illa gekk að loka æðinni og var ekkert hægt að sprengja á meðan. Vatnsrennslið var 60 til 70 lítrar á sekúndu.
Miklu magni af steypu var dælt í holur til að þétta bergið og í gær tókst loks að loka æðinni. Göngin eru nú orðin 2.002 metra löng.
Fram kemur á fréttavefnum Vikudegi að ýmsir hafi velt því fyrir sér hvort flekaflóðið sem fór af stað í Vaðlaheiði í gær sé af völdum sprenginga í göngunum, en forsvarsmenn Vaðlaheiðarganga segja að svo sé ekki.