Forsetanum kunnugt um verkaskiptingu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég held að forseta Íslands sé vel kunnugt um það hvernig menn skipta með sér verkum hvað þetta varðar,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata. Birgitta spurði ráðherrann hver færi með utanríkisstefnu landsins, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands eða ríkisstjórnin. Sagðist hún ekki alltaf átta sig á því.

„Það verður að viðurkennast að þegar ég sá forseta Íslands setja ofan í við ráðamenn frá Noregi fyrir að tjá sig um ástandið í Úkraínu þá fór ég svolítið hjá mér. Mér þótti það frekar neyðarlegt og fleiri þingmönnum sem voru nærri mér á þeim tíma,“ sagði Birgitta og vísaði þar til atburðar sem átti sér stað á ráðstefnu um norðurslóðamál í Bodö í Noregi fyrr í þessum mánuði þar sem Ólafur Ragnar lagðist gegn því að vettvangurinn væri notaður til þess að fordæma Rússa fyrir framgöngu þeirra í Úkraínu. 

„Nú hefur forseti Íslands gjarnan mætt í stóra erlenda fjölmiðla og komið þar með utanríkisstefnu sem ég kannast hvorki við að sé utanríkisstefna fyrrverandi ríkisstjórnar né núverandi ríkisstjórnar. Mér finnst þetta ekki bara vera orðið vandamál heldur er þetta mjög ruglingslegt fyrir vini okkar sem við eigum í samstarfi við í öðrum löndum,“ sagði Birgitta ennfremur og spurði hvort Sigmundur Davíð hefði rætt þessi mál við forsetann.

Forsætisráðherra sagði utanríkisráðherra, ríkisstjórnina og Alþingi fara með utanríkisstefnu Íslands en ekki forsetann. Hann sagðist ekki hafa rætt þetta sérstaklega við Ólaf Ragnar enda ekki talið ástæðu til þess. 

Eðli málsins samkvæmt mætir forseti Íslands á hina ýmsu fundi víða um lönd og er eðlilegt að hann tjái sig þegar hann er spurður álits um stórmál sem eru til umræðu þá dagana. Forseti Íslands hefur málfrelsi. Hann má lýsa skoðun sinni á málum, stórum sem smáum, og hefur á undanförnum árum oft og tíðum gert það ágætlega, einkum og sér í lagi hvað varðar þá áherslu forsetans að verja hagsmuni þjóðarinnar út á við í erfiðum deilumálum sem Íslendingar hafa átt í á undanförnum árum,“ sagði ráðherrann ennfremur.

Birgitta óskaði þá eftir því að Sigmundur tæki málið upp við Ólaf Ragnar.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata..
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka