Grískir vinstrimenn leita til Steingríms

Steingrímur á síðari málstofunni. Alexis Tispras er annar frá hægri.
Steingrímur á síðari málstofunni. Alexis Tispras er annar frá hægri. Ljósmynd/Björg Eva Erlendsdóttir

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, og Alexis Tsipras, formaður Syriza, stærsta stjórnarandstöðuflokks Grikklands, ætla að vera í sambandi eftir sveitarstjórnar- og Evrópuþingskosningar í maí og ræða mögulegt samstarf, fari svo að grískir vinstrimenn komist til meiri áhrifa.

Steingrímur sótti alþjóðlega ráðstefnu vinstrimanna og flutti þar tvö erindi, var annað þeirra á málstofu sem Tsipras var þátttakandi í meðal annarra.

Með Steingrími í för voru Álfheiður Ingadóttir, fv. þingmaður VG, og Björg Eva Erlendsdóttir, fv. formaður stjórnar RÚV. Tóku þær einnig þátt í dagskránni sem má lesa um hér.

Áhugasamir um skattkerfisbreytingar

Steingrímur lýsir erindum sínum svo:

„Ég var ekki með fullkomlega uppskrifaðan texta, heldur notaðist við efnispunkta.

Ég fór lauslega yfir meginlínurnar í okkar aðgerðum. Það var talsvert spurt út í skattkerfisbreytingarnar og hvað skýri að jöfnuður hafi aukist á Íslandi þrátt fyrir kreppuna, öfugt við þróunina í mörgum öðrum löndum. Ný skýrsla frá OECD sýnir fram á þetta,“ segir Steingrímur.

„Ég benti á að hæstu tekjurnar á Íslandi hefðu lækkað af sjálfu sér þegar bónusar og ofurlaun hurfu og fjármagnstekjur minnkuðu. Þá kæmu til áhrif þrepaskipts skattkerfis, hækkun fjármagnstekjuskatts og hækkun lægstu launa sem skilaði því að Ísland væri komið á toppinn á Gini-stuðlinum innan OECD,“ segir Steingrímur og vísar til þekkts mælikvarða á jöfnuð.

Hann segir aðspurður að Tsipras hafi áhuga á að vera í sambandi vid hann, ekki síst komist grískir vinstrimenn til meiri áhrifa með vorinu.

„Við ætlum að vera í sambandi strax eftir sveitarstjórnar- og Evrópuþingskosningarnar í maí og bera okkur saman. Það liggur svolítið í loftinu að úrslitin þar gætu spilast inn í landsmálin og haft þar áhrif.“ 

Beðinn um að skrifa greinar

Spurður nánar út í áhuga Grikkjanna segist Steingrímur hafa farið í nokkur viðtöl við fjölmiðla, auk þess sem hann hafi verið beðinn að stinga niður penna og fjalla um reynsluna af viðreisn Íslands eftir efnahagshrunið 2008.

„Svo var ég beðinn um að skrifa greinar sem ég veit ekki hvað ég gef mér tíma í. Maður hefur ekki tíma fyrir hvað sem er í þessum efnum.“

Kreppan mótar djúp spor syðra.

„Það er satt best að segja býsna þungbært að sjá hvernig sjö til átta ára samfelldur barningur hefur haft áhrif á Grikkland. Samfélagið er verulega laskað,“ segir Steingrímur.

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert