Reykjavíkurborg vantar nafn á safn

Reykjavíkurborg óskar liðsinnis borgarbúa við að finna nafn á nýtt safn sem tekur til starfa 1. júní nk. Undir safnið munu heyra söfnin og sýningarstaðirnir Árbæjarsafn og Landnámssýningin Reykjavík 871±2 í Aðalstræti, Ljósmyndasafn Reykjavíkur í Grófarhúsi, Sjóminjasafnið á Grandagarði 8 og Viðey. 

Safnið hefur umsjón með menningarminjum í Reykjavík og ber ábyrgð á söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum og miðlun á afar fjölbreyttum safnkosti. Um er að ræða muni, hús, ljósmyndir og minjar tengdar sjómennsku o.fl. sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar og varpa ljósi á sögu hennar og menningu. Safnið ber jafnframt ábyrgð á skráningu fornleifa, húsa og mannvirkja, rannsóknum og eftirliti og er ráðgjafi borgaryfirvalda um verndun menningarminja í Reykjavík og um önnur menningarsöguleg verkefni.

Borgin leitar að nafni á safnið sem er lýsandi fyrir fjölbreytta starfsemi stofunarinnar og þjónustu. „Ef þú ert með hugmynd að nafni, sendu hana á netfangið hugmynd@reykjavik.is, ásamt einföldum rökstuðningi. Sérstök nafnanefnd fer yfir allar hugmyndir og verðlaun tengd safninu verða veitt fyrir þrjár áhugaverðustu tillögurnar.“ Frestur til að senda inn hugmyndir er 1. apríl næstkomandi.

Verðlaunin eru meðal annars Menningarkort Reykjavíkur fyrir tvo, Ljósmyndabók Magnúsar Ólafssonar, sýningarrit Landnámssýningarinnar Reykjavík 871±2  og síðast en ekki síst út að borða fyrir tvo í Viðey, Víkinni, eða á Veitingastaðnum Tjörninni í Ráðhúsi Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka