Samingur til 2½ árs líklegur

Kennarar fara yfir stöðu mála.
Kennarar fara yfir stöðu mála. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Viðræður um endurnýjun kjarasamnings félags framhaldsskólakennara ganga hægt og töluvert hik er á samninganefnd ríkisins. Þetta sagði Elna Katrín Jónsdóttir, fulltrúi í samninganefnd FF, í ávarpi sem hún hélt í Verkfallsmiðstöðinni í Framheimilinu í dag. Hún sagði líklegt að samið yrði til 2½ árs eins og staðan væri núna.

Þetta kemur fram á vefsvæði Kennarasambands Íslands. Þar segir að Elna Katrín hafi sagt að leiðrétting á launum væri forgangsatriði hjá samninganefndinni og að „það örlaði á skilningi mótaðilans á nauðsynlegt sé að horfast í augu við þá staðreynd að launaskrið sé miklu minna innan framhaldsskólans en hjá öðrum stofnunum ríkisins“. Elna hvatti ennfremur viðstadda til samstöðu enda væri samtakamáttur stéttarinnar afar mikilvægur við samningaborðið.

Um fimm hundruð framhaldsskólakennarar mættu í Verkfallsmiðstöðina í Framheimilinu í dag. Guðjón Ragnar Jónasson, forsvarsmaður Verkfallsmiðstöðvarinnar, segir að gestum fjölgi jafnt og þétt í verkfallsmiðstöðinni. „Hér svífur samtakamátturinn yfir vötnum,“ segir Guðjón Ragnar.

Samningafundir stóðu yfir alla helgina og fundur stendur nú yfir í húsakynnum ríkissáttasemjara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert