Sámur fann Dorrit í fönninni

Dorrit og Sámur
Dorrit og Sámur Mynd/Landsbjörg

Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff tóku þátt í æfingum Björgunarhundasveitarinnar á Hólmavík í gær ásamt hundinum sínum Sámi. Forsetahjónin tóku virkan þátt í æfingum sveitarinnar og var Dorrit grafin í fönn og hundarnir látnir leita að henni. Sámur var ekki lengi að finna matmóður sína og grafa hana upp undir styrkri stjórn Ólafs Ragnars.

Dorrit er verndari Björgunarhundasveitar Landsbjargar og er Ólafur verndari samtakanna í heild. Jónas Guðmundsson, hjá Landsbjörgu, segir forsetahjónin vera mjög áhugasöm og liðtæk í starfinu. „Þau voru þarna stærstan hluta dagsins og tóku virkan þátt í æfingunum.“

Dorrit og Sámur tóku formlega við starfi verndara hundasveitarinnar í kvöldverðarboði sem haldið var þeim til heiðurs. Sámur ber nú stoltur merki Björgunarhundasveitar Íslands og er að sögn verðugur fulltrúi ferfætlinganna.

Nú stendur yfir árlegt vetrarnámskeið hundasveitarinnar þar sem hundarnir eru þjálfaðir og metnir til leitar í snjóflóðum. 23 hundar eru á námskeiðinu en það er um helmingur allra leitarhunda á landinu. Jónas segir Dorrit hafa verið duglega við að gefa hundunum knús á milli stífra æfinga.

Vilja knús og nammimola

Sámur er ekki sérstaklega þjálfaður björgunarhundur, en Jónas segir leitareðli hans hafa komið í ljós þegar Dorrit var grafin í fönn. „Þau eru víst mjög hænd hvort að öðru og hann hefur fundið lyktina af eiganda sínum og reynir þá auðvitað að finna hana.“

Hann segir þetta leitareðli vera það sem geri hunda að björgunarhundum. „Við erum að spila inná þetta eðli en þjálfa þá í að leita að fólki þó þetta sé ekki eigandinn sem þarf að finna. Hundarnir vilja nefnilega bara komast til eiganda síns og fá knús og nammimola og það er það sem við notum.“ Hér má sjá fleiri myndir frá æfingunni.

Fóru víða um Hólmavík

Forsetahjónin fóru einnig víða í dag og heimsóttu Þróunarsetrið á Hólmavík, Sauðfjársetrið á Ströndum, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Orkubús Vestfjarða, útibú Vegagerðarinnar, rækjuvinnsluna Hólmadrang, leikskólann Lækjarbrekku og Grunn- og tónskóla Hólmavíkur.

Nefna má að forsetahjónin hittu aldraða vistmenn á Heilbrigðisstofnun Vesturlands og snæddu hádegisverð með þeim og með starfsmönnum.

Einnig ræddu hjónin við nemendur Grunn- og tónskóla Hólmavíkur um mannlíf og náttúru á Ströndum og kosti þess að alast upp í litlum samfélögum dreifðra byggða.

Dorrit klappar leitarhundi
Dorrit klappar leitarhundi Mynd/Landsbjörg
Ólafur Ragnar er verndari Landsbjargar og tók virkan þátt í …
Ólafur Ragnar er verndari Landsbjargar og tók virkan þátt í æfingum Björgunarhundasveitarinnar. Mynd/Landsbjörg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert