Engin áform eru um að loka skrifstofu sendinefndar ESB á Íslandi. Þetta staðfestir starfsmaður sendinefndarinnar í samtali við Morgunblaðið, en tilefnið er þau kaflaskil sem orðið hafa í aðildarviðræðum Íslands við sambandið.
Fram kemur á vef sendinefndarinnar að hún hafi stöðu sendiráðs og sé fulltrúi ESB á Íslandi.
Í Morgunblaðinu í dag kemur m.a. fram, að 11 starfsmenn eru skráðir á vef sendinefndarinnar og munu tveir hverfa til annarra starfa, í kjölfar þess að síðasta ríkisstjórn setti samningaviðræðurnar á ís í janúar 2013. Óvissa er um framhald aðildarmálsins vegna deilna um þingsályktunartillögu um ESB.