Horfir á stóru myndina

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands.
Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn

„Þetta er mér mjög mikill heiður og sýnir að það sem ég er að reyna vinna að skiptir í raun einhverju máli,“ segir Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, sem kjörin var í norsku vísindaakademíuna í síðustu viku.

Norska vísindaakademían var stofnuð þann 3. maí 1857 og hefur það að markmiði að efla norsk vísindi og rannsóknir. Kristín segir að í kjörinu felist viðurkenning á því sem hún hefur lagt til vísindanna. Kristín er þegar meðlimur í evrópsku vísindaakademíunni og þeirri íslensku. Hún segir slíkar viðurkenningar gjarnan koma í köflum. „Það er oft þannig að um leið og fólk fer að fá einhverja viðurkenningu kemur heil skriða af þeim, þá er farið að taka eftir manni,“ segir hún kímin.

Leggur áherslu á sjálfbæra þróun

Litið er til heildarstarfa í þágu vísindanna þegar meðlimir eru kjörnir í akademíuna. Kristín hefur ætíð lagt áherslu á rannsóknir tengdar umhverfismálum en í seinni tíð hefur hún einbeitt sér að sjálfbærni.

„Ég byrjaði á því að rannsaka jarðhitakerfi og fór svo að skoða umhverfismengun, hvernig mengunarefni haga sér í umhverfinu og brotna niður. Mér fannst ég voðalega merkilegur vísindamaður þegar ég var með hraðal í Norður-Englandi að skoða uppbyggingu mengunarefna í vatni, en þá hitti ég mann sem var að vinna að sjálfbærni og á meðan á samtali okkar stóð áttaði ég mig á því að hann var að horfa á stóru myndina, en ég var að horfa á atómin.“

Kristín segist hafa orðið fyrir gífurlegu áfalli. „Mér fannst sem ég væri að vinna að einhverju sem engu máli skipti á meðan heimurinn væri að farast. Þá skipti ég algjörlega um gír og ákvað að öll mín vinna skyldi beinast að því að rannsaka það sem kemur sjálfbærni við og hvernig við getum stýrt sjálfbærri þróun.“

Leit upp úr kassanum

Síðan þá hefur Kristín meðal annars rannsakað hvernig hægt sé að varðveita jarðveg til lengri tíma á sjálfbæran máta, hversu lengi auðlindir jarðar komi til með að endast og hvernig hægt sé að þróa sjálfbær samfélög.

„Það eru ekki margir vísindamenn sem hafa farið þessa leið í vísindunum. Yfirleitt eru flestir svolítið fastir í sinni grein eða sínum kassa en ég ákvað að herða upp hugann og líta upp úr kassanum og læra meira,“ segir Kristín.

Kristín Vala verður formlega tekin inn í akademíuna 5. maí næstkomandi.

Kristín leggur áherslu á rannsóknir tengdum sjálfbærri þróun
Kristín leggur áherslu á rannsóknir tengdum sjálfbærri þróun Ljósmynd/Jónatan Hermannsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka