Má nýta við fyrstu kaup á eign

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Golli

Hægt verður að nýta séreignarsparnað upp á 1,5 milljónir kr. að hámarki við kaup á fyrstu eign, ásamt því að að lækka höfuðstól lána. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í samtali við blaðamann mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Frumvörp um skuldaniðurfellingu og nýtingu séreignarsparnaðar til að greiða niður húsnæðislán voru kynnt á fundinum í morgun. 

Gert er ráð fyrir að frumvörpin fari til umfjöllunar inni í þingflokkunum á morgun, miðvikudag, og verði síðan lögð fyrir þingið í framhaldi þess.

Sérstök vefgátt verður opnuð á vefsvæði ríkisskattstjóra hinn 15. maí næstkomandi þar sem hægt verður að sækja um þessar leiðréttingar, en þær verða kynntar á blaðamannafundi á morgun. Þar mun meðal annars koma fram hversu mörg heimili geti nýtt leiðréttingarnar en opið verður fyrir umsóknir í þrjá mánuði. 

Fram kom í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra þegar tillögur ríkisstjórnarinnar voru kynntar í lok nóvember að hámarksfjárhæð niðurfærslu skulda á heimili myndi nema fjórum milljónum króna.

Gert var ráð fyrir að skuldalækkun yrði samtals áttatíu milljarðar og síðan gæfist fólki tækifæri til að lækka höfuðstól lána með nýtingu séreignarlífeyrissparnaðar, en sú lækkun var áætluð samtals sjötíu milljarðar. Gert er ráð fyrir því að aðgerðirnar nái til um 70 þúsund heimila. 

Voru vonir bundnar við að hægt yrði að framkvæma niðurfærslurnar um mitt ár 2014. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert