Meiningin var að gerð yrðu jarðgöng úr Siglufirði yfir í Fljót í framhaldi af gerð Héðinsfjarðarganga, að sögn Trausta Sveinssonar, bónda á Bjarnargili í Fljótum.
Eins samþykktu Fljótamenn og hagsmunaaðilar göng til Siglufjarðar á fundi með Vegagerðinni sem haldinn var í Ketilási á sínum tíma. Hann sagði nauðsynlegt að fá þessi göng, annars væri hætt við að Fljótin færu í eyði.
Jarðgöng myndu leysa Siglufjarðarveg um Almenninga af hólmi og spara mikinn kostnað vegna snjómoksturs og stöðugs viðhalds á veginum vegna jarðsigs. Eins myndu Siglfirðingar losna við þungaumferð í gegnum bæinn.
Í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Trausti að Fljótamenn vilji fá jarðgöng frá Hraunum í Fljótum og yfir í Skarðsdal í Siglufirði. Þeim hugnist ekki hugmynd Vegagerðarinnar um göng frá Nautadal í Fljótum yfir í Hólsdal í Siglufirði.