Atvinnuleysi var 4,2% í febrúar

Samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru í febrúar 2014 að jafnaði 181.400 manns á vinnumarkaði. Af þeim voru 173.700 starfandi og 7.700 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 79,1%, hlutfall starfandi 75,7% og atvinnuleysi var 4,2%. Samanburður mælinga í febrúar 2013 og 2014 sýnir að atvinnuþátttaka jókst um 0,3 prósentustig og hlutfall starfandi minnkaði um 0,7 prósentustig. Hlutfall atvinnulausra minnkaði á sama tíma um 0,5%.

Árstíðaleiðréttur fjöldi fólks á vinnumarkaði í febrúar 2014 var 185.200 sem jafngildir 80,5% atvinnuþátttöku sem er fækkun um 700 manns frá því í janúar, en hlutfallið þá var 80,8%. Fjöldi atvinnulausra í febrúar var 8.000 og fækkaði um 3.400 manns frá því í janúar 2014. Hlutfall atvinnulausra var 4,3% í febrúar en 6,1% í janúar. Fjöldi starfandi fólks í febrúar var 177.200, eða 77%, en var 174.500 í janúar. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu minnkaði atvinnuleysi um 1,8 prósentustig á milli mánaða og hlutfall starfandi jókst um 1,2 prósentustig.

Þegar leitni árstíðaleiðréttingar á vinnumarkaðstölum er skoðuð sést að allt frá janúar 2011 hefur atvinnulausum fækkað jafnt og þétt eða um 4.000 manns. Á sama tímabili hefur starfandi fjölgað um 10.000 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert