Á síðasta ári vantaði herslumun að það tækist að tengja djúpholuna sem boruð var við Kröflu árið 2009 inn á kerfi virkjunarinnar.
Þegar unnið var við borunina kom borinn niður á bráðna bergkviku á 2.100 metra dýpi og hafa rannsóknir og tilraunir tengdar þessu verkefni vakið mikla athygli í heimi jarðvísindanna.
Í samtali í Morgunblaðinu í dag segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að ekki liggi fyrir hvernig holan verður nýtt. „Holan er gríðarlega aflmikil og þegar við vorum komin mjög nálægt því fyrir ári að tengja hana inn á Kröflustöð gáfu lokar sig þannig að af því varð ekki þá,“ segir Hörður.