Landspítalinn er yfirfullur og er rúmanýting vel yfir 100%. Samkvæmt upplýsingum frá yfirstjórn spítalans er engin ein skýring á þessu heldur eru vandamálin margvísleg. Þeim tilmælum er vinsamlega beint til fólks að leita fremur til heilsugæslunnar og Læknavaktarinnar en bráðamóttöku Landspítala.
„Framkvæmdastjórn spítalans kom saman í hádeginu til þess að bregðast við vandanum. Viðbótarstarfsfólk hefur verið kallað til á bráðadeildum og legudeildum. Þar sem allar deildir eru fullar, að meðtöldum bráðadeildum og gjörgæsludeildum, var ákveðið að fresta aðgerðum og rannsóknum, bæði varðandi skurðlækningar og lyflækningar. Einnig verður leitast við að flýta blóðrannsóknum á legudeildum til þess að greiða fyrir útskriftum,“ segir í tilkynningu.
Þá er fólki vinsamlega bent á að leita leita fremur til heilsugæslunnar og Læknavaktarinnar en bráðamóttöku Landspítala, nema brýna nauðsyn beri til.
Fulltrúar úr framkvæmdastjórn spítalans munu koma saman daglega þar til plássstaðan er komin í viðunandi horf.