Íbúar í Norðlingaholti hafa fundið megna ólykt stíga upp úr niðurföllum á baði og í þvottahúsum í íbúðum víða um hverfið frá áramótum. Heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík hefur kannað málið án árangurs en það hefur verið að störfum í Norðlingaholti í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlinu hafa sjö kvartanir borist í dag. Meðal annars frá íbúum í Helluvaði, Krókavaði, Kambavaði og Lindarvaði. Kvartanir hafa borist reglulega undanfarið.
Sigurlaug Þóra Kristjánsdóttir, íbúi í Helluvaði, segist hafa fundið fyrir ólyktinni frá áramótum. Hún hafi ágerst síðustu vikur og finnist nú á þriggja til fjögurra daga fresti.
„Þetta er bara bensínlykt,“ segir Sigurlaug sem býr á fimmtu hæð í fjölbýlishúsi. „Það veit enginn hvað þetta er. Ég hélt í fyrstu að þetta væri eingöngu í lögnunum hjá mér en nú er ég búin að komast að því að svo er ekki,“ segir Sigurlaug.
Að sögn hennar hafa hún, maður hennar og tvö börn fundið fyrir hausverk vegna ólyktarinnar. Sömu sögu er að segja af fleiri íbúum sem fundið hafa fyrir óþægindum. „Það er ekki hægt að hafa opið inn á bað eða inn á þvottahús, því þá gýs upp þessi spilliefnalykt,“ segir Sigurlaug.
Hún segir að starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hafi komið til sín í tvígang, síðast í gær, til að kanna hverju sæti. Ekki hefur tekist að hafa uppi á því hvaðan lyktin kemur.
Í hverfinu er bensínstöð en samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu hefur ekki verið hægt að rekja ólyktina þangað þótt ekki sé útilokað að hún stafi af henni.
„Í fyrstu fundum við þessa lykt kannski á þriggja vikna fresti. Nú er þetta orðið þannig að þetta kemur og fer á 3-4 daga fresti. Lyktin er einnig að verða sterkari,“ segir Sigurlaug.
Að sögn hennar virðist sem ólyktin gjósi upp á ólíkum stöðum og sé ekki samtímis í þeim götum þar sem íbúar hafa kvartað undan lyktinni. „Þeir hjá heilbrigðiseftirlitinu eru sammála því að þetta sé ekki eðlilegt. Þeir eru búnir að fá Orkuveituna til að opna brunna í hverfinu til að skoða hvort einhverjar vísbendingar megi finna þar,“ segir Sigurlaug og fékkst það staðfest hjá heilbrigðiseftirlitinu.
Hún hefur búið í hverfinu í fjögur ár og hafði ekki fundið lyktina fyrr en um áramótin.