„Stærstu efndir Íslandssögunnar“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundinum í dag. mbl.is/Golli

„Kosningaloforð sem var kallað stærsta kosningaloforð Íslandssögunnar. Ætli við köllum þetta þá ekki stærstu efndir Íslandssögunnar.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í samtali við mbl.is eftir blaðamannafund í dag, þar sem hann og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu frumvörp ríkisstjórnarinnar vegna leiðréttinga á skuldum heimilanna, spurður hvort hann liti svo á að með þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar eru hefði verið staðið við kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna í þeim efnum. Það væri vissulega svo sagði ráðherrann.

„Það er auðvitað gríðarlega góð tilfinning og gleðileg. Það var mikil og góð stemning á þingfundinum áðan þegar frumvörpin voru afgreidd þar,“ sagði hann ennfremur. Það væri líka ánægjulegt að kostnaðurinn við aðgerðina væri ekki eins mikill og pólitískir andstæðingar ríkisstjórnarinnar hefðu haldið fram. 

„En eins er rétt að geta þess að það getur vel verið að ríkið klári að gera þetta upp fyrr ef menn ljúka málum í tengslum við afnám hafta og til verður þetta svigrúm sem mér heyrist menn almennt vera orðna sammála um að þurfi að verða til. Þá verður hægt að klára þetta ennþá hraðar og kostnaðurinn verður ennþá lægri,“ sagði hann.

Eðlilegt sé að benda á þessi tengsl. Þegar búið sé að gera upp fjármálakerfið sem leiddi til margumtalaðs forsendubrests þá sé tækifærið notað til þess að rétta hlut heimilanna. Grundvallaratriði í því sambandi sé þó að leiðréttingin komi strax fram hjá lántakandanum.

Spurður hvort þetta sé endapunkturinn á aðgerðum ríkisstjórnar hans í skuldamálum heimilanna segir Sigmundur að þetta sé stærsti liðurinn í þeim aðgerðum sem kynntar hafi verið með þingsályktun síðasta sumar. En hún myndi ekki leysa vanda allra. Áfram yrði að tryggja að til væru úrræði fyrir þá sem ættu við vanda að glíma í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka