Svipti sambýlismann sinn frelsi

Lögreglumenn. Myndin er ekki frá vettvangi í morgun.
Lögreglumenn. Myndin er ekki frá vettvangi í morgun. Eggert Jóhannesson

Lögregla höfuðborgarsvæðisins var kölluð út að fjölbýlishúsi í Hjallahverfi í Kópavogi í morgun vegna vopnaðs manns sem meinaði sambýlismanni sínum að yfirgefa íbúð þeirra. Frelsissviptingin stóð frá því í nótt og fram á morgun þegar vopnaði maðurinn sofnaði. Hann var handtekinn og hald lagt á vopnin.

Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, segir að mennirnir búi saman í íbúðinni. Þeim hafi sinnast í nótt og varð það til þess að annar maðurinn meinaði hinum útgöngu úr íbúðinni auk þess að veita honum minniháttar áverka. Ástandið tók að róast með morgninum og lognaðist árásarmaðurinn út af vegna þreytu í morgun.

Lögregla vakti manninn og handtók hann. Ómar Smári segir að tekin verði skýrsla af honum síðar í dag eða þegar hann hefur sofið úr sér vímuna en málið tengist að miklu leyti neyslu áfengis eða annarra vímuefna.

Þá lagði lögregla hald á hníf og öxi sem maðurinn hafði í vörslum sínum. Hvorugur mannanna er það sem kallað hefur verið góðkunningi lögreglunnar, þ.e. þeir eiga ekki að baki sakarferil svo máli skiptir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka