Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að leiðréttingin svokallaða sé ekki aðeins aðgerð til að koma til móts við skuldug heimili, heldur líka stór efnahagsleg aðgerð. Hún sé einn liður í því að koma Íslandi á beinu brautina eftir hrun bankanna haustið 2008.
Á blaðamannafundi í Iðnó í dag, þar sem frumvörp ríkisstjórnarinnar voru kynnt, sagði hann jafnframt að aðgerðirnar væru „mikið fagnaðarefni“. Þær væru enn einn liðurinn í því hvernig Íslendingar tækjust á við mjög stórt áfall, hrunið.
Sigmundur sagði að hægt yrði að sækja um leiðréttinguna hjá ríkisskattstjóra 15. maí næstkomandi. Búið væri að hanna sérstakt notendaviðmót í samstarfi við ríkisskattstjóra.
„Svo fara hjólin að snúast,“ bætti Sigmundur við.
Fram kom í máli Sigmundar að litlar sem engar breytingar væru á þessum frumvörpum og því sem kynnt var á blaðamannafundi í Hörpu í lok nóvembermánaðar. Heildarumfangið yrði um 150 milljarðar og þá myndi leiðréttingin ná til að allt að 100 þúsund heimila. Hins vegar væri hún að frumkvæði lántaka.
Hann sagði að samt sem áður hefði þurft að fara í gegnum og leysa ýmis úrlausnarefni. „Eins og staðan er núna er þetta orðið mjög aðgengilegt fyrir almenning. Það er ekki flókið fyrir almenning að gera það sem þarf til að ná fram þessari leiðréttingu,“ sagði hann.
Ríkisstjórnin kynnti í dag tvö frumvörp sem lækka húsnæðisskuldir heimila í landinu og auðvelda þeim sem ekki eiga íbúð að kaupa húsnæði. Annars vegar er um að ræða leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattafslátt vegna séreignarlífeyrissparnaðar.
Með lækkuninni á greiðslubyrði heimilanna að léttast og ráðstöfunartekjur þeirra að aukast.