Fundur samninganefnda í kjaradeilu ríkisins við framhaldsskólakennara og stjórnendur í framhaldsskólum hófst í húsnæði ríkissáttasemjara klukkan 10 í morgun. Ólafur Hjörtur Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum, segir hljóðið þungt þeirra megin við borðið.
Fundað hefur verið stíft síðustu daga og vikur vegna kjaradeilunnar. Fundi var slitið á fimmta tímanum í gær, heldur fyrr en síðustu daga. Samninganefnd ríkisins lagði fram nýjar tölur í tengslum við launamálin á fundinum í gær en þær virðast ekki hafa vakið mikla lukku.
„Við erum búin að vera að vinna í samningi undanfarnar vikur. Í gær fórum við yfir atriði sem við urðum dálítið hissa yfir, í tengslum við launaliðina,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is fyrir fundinn í morgun, um tölurnar sem lagðar voru fram á fundinum í gær og stöðu mála í deilunni. Hann sagði að ekki væri tímabært að greina nákvæmlega frá tölunum sem lagðar voru fram.
Farið verður yfir tilboð ríkisins á fundinum sem hófst klukkan 10 í morgun. „Við erum hissa á þessu tómlæti hjá ríkisvaldinu þegar verkfallið er komið langt inn í aðra viku. Það er þungt í okkur hljóðið,“ segir Ólafur.