Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna feli einnig í sér nýja hugsun í húsnæðismálum. Nú verði mögulegt að nýta séreignarsparnað til fasteignakaupa og njóta samsvarandi skattafsláttar. Það geti meðal annars nýst fjölskyldum í leiguhúsnæði.
„Við höfum búið við kerfi þar sem hvati hefur verið til staðar til að taka há lán. Þetta nýja fyrirkomulag, sem þó gengur ekkert á fyrra fyrirkomulagið, byggist á því það sé skynsamlegt að leggja fyrir til þess að eiga fyrir fasteignakaupunum,“ sagði fjármálaráðherra.
Fram kom í máli hans á blaðamannafundinum í Iðnó í dag að ekki væri hægt að reikna út endanlegt heildarumfang aðgerða ríkisstjórnarinnar strax. Leiðréttingin væri að frumkvæði lántakans og ekki væri, eðli málsins samkvæmt, vitað með nákvæmum hætti hve margir myndu kjósa þá leið.
Hann sagði jafnframt að gert væri ráð fyrir því að heimilin myndu njóta góðs af aðgerðunum strax í haust.
Bjarni nefndi einnig að hann hefði fengið góð og jákvæð viðbrögð frá leiðtogum stjórnarandstöðunnar um að málið fengi góðan framgang í þinginu. Hann sagðist gera væntingar til þess að frumvörpin yrðu samþykkt í þingnefndum á næstu vikum á vorþingi.
Ríkisstjórnin kynnti í dag tvö frumvörp sem lækka húsnæðisskuldir heimila í landinu og auðvelda þeim sem ekki eiga íbúð að kaupa húsnæði. Annars vegar er um að ræða leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattafslátt vegna séreignarlífeyrissparnaðar.
Með lækkuninni á greiðslubyrði heimilanna að léttast og ráðstöfunartekjur þeirra að aukast.