Vilja ræða við Ragnar um grein hans

Ragnar Árnason hagfræðiprófessor
Ragnar Árnason hagfræðiprófessor Eggert Jóhannesson

Þrír þingmenn í velferðarnefnd Alþingis hafa óskað eftir því að Ragnar Árnason prófessor komi fyrir nefndina og geri grein fyrir fullyrðingum sínum og hugmyndum sem komi fram í grein eftir hann í tímariti hagfræðinema Háskóla Íslands. Þar segir hann að opinberar heilbrigðistryggingar séu samfélaginu skaðlegar.

Þetta kom fram í máli Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi í dag. Hún sagði fullt erindi til að ræða þetta mál í velferðarnefnd enda vekti greinin ótta í ljósi þess að Ragnar væri formaður sérstaks ráðgjafarráðs fjármálaráðherra um efnahagsmál og opinber fjármál.

Hún sagði greinina gefa tilefni til að ræða hversu langt hægrisinnuð ríkisstjórn ætlaði að ganga í einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og eins að kanna hvort fjármálaráðherra væri sama sinnis og Ragnar. Lilja sagði ljóst hvaða þjóðfélagshópar myndu hagnast á markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins, þ.e. þeir tekjuhæstu, en á móti yrðu þeir tekjulægstu mjög illa úti.

Ekki til skoðunar hjá ráðinu

Málið var raunar tekið fyrir á Alþingi 18. mars síðastliðinn þegar Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra út í greinina. Hún spurði þá hvort hugmyndir Ragnars væru hluti af einhverri stefnumótun sem unnin væri á vegum ríkisstjórnarinnar eða ráðgjafarráðsins eða hvort þetta væru meira hagfræðilegar æfingar.

Bjarni svaraði því til að umræðan ætti í sjálfu sér ekki erindi í þingsalinn þar sem ekki væri um að ræða grein sem hann sjálfur tefldi fram. „Ragnar Árnason er í ráðgjafarráðinu hjá efnahagsráðuneytinu en engar hugmyndir af þessum toga eru til skoðunar í ráðuneytinu, þ.e. að leggja niður almannatryggingakerfið,“ sagði Bjarni. 

Hann sagðist engu að síður áhugamaður um að auka hlut einkaaðila í að veita hina opinberu þjónustu á kostnað ríkisins með þeirri fjármögnun sem þekkt væri í dag svo að virkjaðir væru kraftar einkaframtaksins í auknum mæli í heilbrigðiskerfinu. „Ég vek athygli á því að hlutur einkaframtaksins í að veita þjónustu sem fjármögnuð er af hinu opinbera er langtum minni, mun minni en í hinu fyrirheitna landi sósíaldemókrata, Svíþjóð. Þar er hlutur einkaframtaksins mun hærri. Ég tel að við gætum aukið framleiðni í kerfinu, fengið meira fyrir sama fjármagn með því að feta okkur inn á þær brautir,“ sagði Bjarni þá.

Katrín sagði í kjölfarið að „grimm hægristjórn“ hefði verið rekin í Svíþjóð undanfarin tvö kjörtímabil sem sæist best á einkarekstri bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu. „Þá sjáum við greinilega hvert ríkisstjórn Íslands stefnir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert