Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að það hafi verið mikil gleðistund þegar skuldamálafrumvörpin voru afgreidd úr þingflokknum í gær auk viðbótar við að koma til móts við þá sem eiga ekki húsnæði. „Svo virðist umsóknarferlið vera auðveldara en að panta sér pizzu,“ skrifaði Sigmundur Davíð á facebooksíðu sína í gær.
Líkt og fram hefur komið kynnti ríkisstjórnin í gær tvö lagafrumvörp sem ætlað er að lækka húsnæðisskuldir heimila í landinu og auðvelda þeim sem ekki eiga íbúð að kaupa húsnæði.
Annars vegar er um að ræða leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattafslátt vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Með lækkuninni léttist greiðslubyrði heimilanna og ráðstöfunartekjur þeirra aukast, að því er segir í tilkynningu frá stjórnvöldum.
Heildarumfang aðgerðanna er metið á um 150 milljarða króna og ná þær til allt að 100 þúsund heimila. Samanlögð áhrif aðgerðanna geta lækkað dæmigert húsnæðislán um u.þ.b. 20%. Ríkisskattstjóri sér um umsóknarferlið sem verður einfalt og aðgengilegt á vef á vegum embættisins. Opnað verður fyrir umsóknir þegar frumvörpin eru orðin að lögum frá Alþingi.