Skráning skólastjóra á persónuupplýsingum um nemanda og móður hans og afhending þeirra til menntamámálaráðuneytis samrýmdist ekki lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar.
Móðir nemandans kvartaði til Persónuverndar vegna meðferðar skólastjórans á upplýsingunum. Meðal þeirra færslna sem koma fram eru:
Í niðurstöðu Persónuverndar segir að málefnalegt verði að telja að skólastjóri grunnskóla riti persónulega minnispunkta um ýmis atvik sem koma upp í skólanum og varða nemendur. „Engu að síður liggur fyrir í þessu máli að umrædd dagbókarskráning um kvartanda og barn hennar var umfram það sem lög nr. 91/2008 um grunnskóla og 5. gr. reglugerðar nr. 897/2009 gera ráð fyrir, t.d. skráning upplýsinga um meint mar á kinn kvartanda, og því verður að telja að slíkar skráningar í dagbók skólastjóra hafi ekki verið sanngjarnar eða málefnalegar í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.“
Þá segir að skólastjórinn hafi afhent ráðuneytinu útprentaðar skráningar úr umræddri dagbók við meðferð máls móður nemandans hjá ráðuneytinu, án þess að ráðuneytið hefði óskað eftir þeim eða séð verði að þær hafi haft nokkra þýðingu fyrir meðferð málsins í ráðuneytinu.
„Af framangreindu leiðir að miðlun persónuupplýsinga úr dagbók skólastjórans hafi farið fram í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi en upphaflega stóð til með skráningu upplýsinga í hana, og var því meðferð hans á persónuupplýsingum um kvartanda og [barn] hennar úr umræddri dagbók ekki í samræmi við ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.“