Reykjavíkurborg tekur þátt í Jarðarstund eða Earth hour í þriðja sinn með því að kveikja ekki götuljósin í borginni fyrr en kl. 21:30 laugardaginn 29. mars nk.
Jarðarstund er alþjóðlegur umhverfisviðburður sjálfboðaliðasamtakanna World Wildlife Fund sem 7.000 þúsund borgir í 150 löndum taka þátt í. Margir hafa hugann við hlýnun jarðar af mannavöldum og þau áhrif sem meðal annars birtast í náttúruhamförum eins og ofsaveðri, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
„Í Reykjavík dimmir þegar Jarðarstundin stendur yfir og best að styðja viðburðinn með því að kveikja ekki götuljósin, myrkur er skráð kl. 21 og einhver norðurljósavirkni mælist. Reykjavíkurborg hvetur um leið alla sem hafa forræði yfir upplýstum byggingum í borginni til að slökkva á lýsingunni þessa klukkustund svo fólk geti notið stundarinnar betur. Vitað er að ráðhúsið í Reykjavík, Perlan í Öskjuhlíð og aðalbygging Háskóla Íslands verða ekki upplýst,“ segir í tilkynningunni. Nánar á vef Reykjavíkurborgar.