Ekki hefur farið mikið fyrir afurðum úr mjólk íslensku sauðkindarinnar á borðum landsmanna síðustu hundrað árin eða svo.
Það gæti þó orðið breyting á bráðlega því Landssamtök sauðfjárbænda (LS) hafa sett af stað verkefnið Sauðamjólk! og óska eftir sauðfjárbændum sem eru áhugasamir um að mjólka ær sínar.
„Okkur langar til þess að vinna að því að það verði til afurðir úr sauðamjólk hér á innanlandsmarkaði. Við erum fyrst og fremst að horfa á osta, þá mygluost. Við vitum að það er eftirspurn eftir honum en íslenskur sauðaostur hefur ekki verið í boði í nokkur ár,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri LS, í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag.