Andlát: Benedikt Árnason

Benedikt Árnason.
Benedikt Árnason. Ljósmynd/Julia Staples

Benedikt Örn Árnason, leikari og leikstjóri, lést 25. mars síðastliðinn, 82 ára að aldri.

Benedikt fæddist í Reykjavík 23. desember 1931, sonur Jónu K. Jóhannesdóttur húsmóður og Árna Benediktssonar forstjóra.

Benedikt lauk stúdentsprófi frá MR 1951 og hélt þá í þriggja ára leiklistarnám til London, í Central School of Speech and Drama. Eftir að heim kom starfaði hann fyrst hjá Leikfélagi Reykjavíkur, en fljótlega lá leið hans upp í Þjóðleikhús, þar sem hann starfaði mestallan sinn starfsferil sem leikari og leikstjóri, en þó fyrst og fremst sem leikstjóri.

Á löngu tímabili var hann helsti leikstjóri Þjóðleikhússins og setti þar upp á sjötta tug sýninga. Hefur enginn annar leikstjóri sett upp svo mörg verk við Þjóðleikhúsið. Þetta tímabil spannar árin 1957 til 1991, allt frá Litla kofanum til Söngvaseiðs.

Auk þess leikstýrði Benedikt í öðrum leikhúsum í Reykjavík og úti á landsbyggðinni.

Verkefnalistinn er bæði langur og fjölbreyttur, klassísk verk, ný verk – íslensk sem erlend, söngleikir, farsar, tragedíur – allt sem nöfnum tjáir að nefna. Eru hér nokkur nefnd af handahófi: Nashyrningarnir, Húsvörðurinn, Hamlet, Eftir syndafallið, Galdra-Loftur, Þrettándakvöld, My fair lady, Káta ekkjan, Cavalleria rusticana og Vesalingarnir.

Þar að auki leikstýrði Benedikt fjölda leikrita í útvarpi, m.a. fyrsta íslenska framhaldsleikritinu, Víxlar með afföllum, árið 1958, nokkrum sjónvarpsverkefnum, þar á meðal fyrstu leikritaupptöku sjónvarpsins árið 1967, en það var leikritið Jón gamli. Benedikt lék einnig í nokkrum kvikmyndum.

Eftirlifandi eiginkona hans er Erna Geirdal. Synir hans eru Einar Örn og Árni.

Útför Benedikts Árnasonar verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík 8. apríl nk. kl. 15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert