Mannréttindi virt að vettugi

Átök á frelsistorginu í Kænugarði fyrr á árinu.
Átök á frelsistorginu í Kænugarði fyrr á árinu. EPA

Stórfelld mannréttindabrot hafa verið framin í Úkraínu á liðnum mánuðum þar sem mómælendum hefur verið misþyrmt og þeir niðurlægðir. Þungamiðja brotanna hefur nú færst til Krímskaga þar sem fjölmargir lifa í stöðugum ótta um líf sitt og frelsi. Þetta segir Zoryan Kis, herferðastjóri Amnesty International í Úkraínu, sem nú er staddur á Íslandi og verður með erindi um mannréttindaástandið í Úkraínu í dag á skrifstofu Íslandsdeildarinnar í Þingholtsstræti.

Kis var staddur í miðri hringiðu mótmælanna á Maidan-torgi 19. febrúar, en fyrr um daginn voru 30 mótmælendur skotnir til bana af lögreglu. Hann segir lögregluna hafa starfað undir fyrirmælum stjórnvalda um að hreinsa torgið með öllum tiltækum ráðum. Þegar lögreglan braut niður varnargarða mótmælenda mynduðu þeir eldvegg á milli sín og lögreglu með því að brenna dekk og allt það sem brenna mátti. „Lögreglan beitti gríðarlegu ofbeldi og gerði engan greinarmun á þeim sem mótmæltu friðsamlega og þeim sem létu ófriðlega.“ Kis stóð um 15 metra frá fremstu víglínu mótmælanna og líkir því við stríðsástand. „Ég horfði upp á mann vera skotinn í hálsinn af lögreglu. Þetta var mjög fagmannlega gert og alveg augljóst að ekki átti að gefa honum möguleika á lífi.“

Neyddir til að afklæðast

Hann segir óeirðalögregluna og háttsetta menn innan hennar hafa ítrekað tekið mótmælendur úr hópnum og niðurlægt þá. „Það var nístingskuldi, um 20 gráða frost, þegar þeir tóku einn mótmælenda og skipuðu honum að fara úr öllum fötunum. Þá létu þeir hann syngja „Heill sé lögreglu“ og ganga í gegnum raðir lögreglumanna sem börðu hann með plaströrum og úðuðu piparúða yfir nakinn líkama hans.“

Hann segir rannsókn á aðgerðum lögreglunnar vera nauðsynlega. „Það er gríðarlega mikilvægt að skoða málið vel því það fóru ekki allir lögreglumenn fram með þessum hætti. Það þarf að bera kennsl á þá og láta þá sæta ábyrgð að lögum.“ Kis segist hafa fengið jákvæð viðbrögð frá saksóknara og innanríkismálaráðherra Úkraínu og telur þá gera sér grein fyrir að allur heimurinn sé að fylgjast með og segir bandarísku alríkislögregluna þegar hafa boðið fram sína aðstoð við rannsókn málsins. Verkið gæti þó reynst erfitt viðureignar þar sem lögreglumennirnir voru ómerktir og grímuklæddir auk þess sem margir þeirra er harðast gengu fram hafa þegar gengið í raðir sjálfsvarnarliðsins á Krímskaga sem hliðhollt er Rússum. Þar hafi margir þegar fengið rússnesk vegabréf, boð um störf innan rússnesku lögreglunnar og hlotið vernd rússneskra stjórnvalda. „Það er virkilegt áhyggjuefni að þeir lögreglumenn sem mögulega eru sekir um alvarleg mannréttindabrot fái stuðning og vernd frá rússneskum yfirvöldum og komist þannig undan ábyrgð,“ segir Kis.

Versnandi ástand á Krímskaga

Hann segir fjölmörg mannréttindabrot hafa verið framin í mótmælunum en nú hafi þungamiðjan hins vegar færst til Krímskaga. „Við höfum miklar áhyggjur af ástandinu og teljum það eingöngu koma til með að versna.“ Hann segir einhverja vera farna að færa sig til Úkraínu af ótta um öryggi sitt en aðrir komi ekki til með að fara viljugir, þar á meðal margir tatarar sem eru um 12% íbúa á Krímskaga. Hann segir þá minnast hryllingsins þegar Stalín lét flytja þá frá Krímskaga í seinni heimsstyrjöldinni og nú berjist þeir gegn sameiningu við Rússland og vilji hvergi frá heimili sínu fara. „Við höfum miklar áhyggjur af þeim, því þeim er verið að ógna. Við vitum til dæmis að rússneskumælandi íbúar Krímskaga hafa verið að krota á húsveggi hjá þeim og segja þeim að koma sér burt.“ Þó að íbúar Krímskaga séu enn úkraínskir ríkisborgarar og ættu samkvæmt því að eiga aðgang að úkraínskum dómstólum hafa dómstólarnir í raun ekki lögsögu yfir svæðinu lengur.

„Nú er engin leið fyrir þetta fólk að leita réttar síns á tryggan hátt sé á því brotið og það er grafalvarlegt,“ segir Kis en vonar að frumvarp sem nú er í smíðum á úkraínska þinginu um hernumin svæði feli í sér einhverja lausn. „Fólk er rænt á götum úti og aðgerðarsinnar numdir á brott, yfirheyrðir og pyntaðir. Mikilvægt er að þeir sem verða fyrir slíkum mannréttindabrotum fái stuðning frá alþjóðasamfélaginu.“

Zoryan Kis, herferðastjóri Amnesty International í Úkraínu, verður með erindi …
Zoryan Kis, herferðastjóri Amnesty International í Úkraínu, verður með erindi um mannréttindaástandið í Úkraínu í dag á skrifstofu Íslandsdeildarinnar í Þingholtsstræti. Árni Sæberg
Á gangi í Kænugarði.
Á gangi í Kænugarði. AFP
Mótmælandi í Kænugarði.
Mótmælandi í Kænugarði. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert