Stelpa frá Íslandi ein af gaurunum

Vilborg Arna Gissurardóttir einsetti sér í fyrra að klífa tindana sjö, sem eru hæstu tindar í hverri heimsálfu, á einu ári. Tíu mánuðir eru liðnir frá því verkefnið hófst og hún komst á topp Denali, sem er hæsta fjall Norður-Ameríku. Nú er komið að hæsta fjalli heims og á sunnudag hefst ferðalagið.

„Það er ávallt ákveðið stress að komast af stað. Maður safnar saman búnaðinum sem maður er að fá og það þarf að pakka - og maður pakkar nokkrum sinnum til að vera viss um að allt sé með, allt,“ segir Vilborg í samtali við mbl.is og hlær.

„Svo er maður að kveðja vini og fjölskyldu í rúmlega tvo mánuði og það er oft erfiðara fyrir þá sem heima sitja en fyrir mann sem er að fara af stað.“

„Hey guys!“

Vilborg flýgur frá Íslandi á sunnudagsmorgun til London. Þaðan flýgur hún til Indlands og seinni part mánudags verður hún svo komin til Katmandú, höfuðborg Nepals. 1. apríl hittir hún svo hópinn sinn.

„Við erum sex í þessum hóp. Það eru fimm karlmenn allstaðar að úr heiminum og svo ein stelpa frá Íslandi.“

Vilborg tekur fram að hún sé vön því að vera hluti af gaurunum. „Ég geri stundum grín að því að það verða örugglega liðnir tveir eða þrír dagar þegar ég þarf að fara svara kallinu „Hey guys!“. Það er eiginlega alltaf þannig,“ segir hún hlæjandi.

Tekur tíu daga að komast í grunnbúðirnar

Þriðja apríl leggur hópurinn svo af stað upp í grunnbúðir Everest.

„Það tekur okkur tíu daga að komast þangað og það er hluti af þessu aðlögunarferli - grunnbúðirnar eru í 5.300 metrum,“ segir hún og bætir við að þá byrji hópurinn á að vinna markvisst að hæðaraðlöguninni.

„Við erum að ganga upp í fyrstu, aðrar og þriðju búðir í svolítið mismunandi leiðöngrum til að aðlagast hæðinni. Það er svo gert ráð fyrir að við séum orðin hæðaraðlöguð 5. maí,“ segir Vilborg. Eftir þann tíma taki við nokkurra daga hvíld þar sem hópurinn nærir sig og býr sig undir síðasta áfangann, bæði líkamlega og andlega. 

Svo er stefnt að því að reyna að komast á topp Everest einhverntímann á tímabilinu 13. - 25. maí, þ.e. þegar veður leyfir. „Þá munum við fara í þessa lokaatrennu og hún er alveg sex dagar,“ segir Vilborg. Aðspurð segist hún fara upp suðurhlíð fjallsins, sem nefnist South Col, sem sé sú leið sem flestir fara.

Má ekki veikjast

Ljóst er að það fylgir fjallgöngufólki mikill búnaður er það ætlar sér að klífa há fjöll í fjarlægum löndum. „Af því að þetta er svo langt ferðalag og fjallið er svo hátt, þá er þetta bæði frá því að vera venjuleg gönguföt, svona eins og maður myndi fara í á Esjuna, og upp í það að vera mjög tæknilegur búnaður. Tvöfaldir gönguskór sem ná upp að hnjám, dúngalli og tæknibúnaður eins og exi, broddar og svoleiðis. Svo fæ ég súrefni úti,“ segir Vilborg.

Verkefninu skiptir Vilborg upp í þrjá áfanga. Sá fyrsti snýr að því að komast í grunnbúðirnar og það sé ferðalag sem hún vilji njóta. Annar áfanginn snýr að hæðaraðlöguninni, hugsa vel um sig og reyna að forðast veikindi. „Ef maður verður lasinn, t.d. í grunnbúðunum, þá batnar manni mjög seint og illa. Maður þarf þá yfirleitt að fara niður,“ segir Vilborg

Þriðji áfanginn snýst um að komast á topp Everest. „Eins og staðan er í dag þá er ég kannski ekki akkúrat að hugsa um toppinn.“

Slakar á í flugvélinni

Vilborg setti sér það markmið að klífa tindana sjö, þ.e. sjö hæstu fjöll hverrar heimsálfu, á einu ári. Sex tindar eru nú að baki og nú tekur við sá sjöundi og sá hæsti. Spurð út í verkefnið segir Vilborg að þetta hafi á heildina litið gengið mjög vel. „Það hafa alltaf komið upp hindranir á leiðinni og það hefur nú bara hjálpað mér að fá meiri reynslu, eins og maður segir. Ég hef ekki orðið fyrir líkamlegum óhöppum eða svoleiðis,“ tekur Vilborg fram. Þetta sé allt þjálfun sem sé innlegg í reynslubankann sem skipti miklu máli.

„Á fjöllum eins og Everest þá er það oft reynslan umfram aðra þætti sem vinnur með manni þegar eitthvað bjátar á,“ segir hún.

Þá hefur hún einnig leitað ráða hjá öðrum Everest-förum, bæði íslenskum og erlendum. „Það skiptir mig miklu máli að geta hitt fólk og spjallað og spurt spurninga. Ég hef verið að ferðast um heiminn í heilt ár og hef hitt ansi marga sem hafa farið á Everest, svona hlutfallslega miðað við fjöldann,“ segir hún. Hún sé því búin að kortleggja leiðangurinn eftir bestu getu.

Aðspurð segist Vilborg hlakka til að upplifa tilfinninguna þegar hún sest í flugvélina, andvarpar og finnur hvernig spennan líður úr henni. „Þetta er mjög merkilegt móment. Maður sest niður í flugvélinni og þá líður allt úr manni; þetta er ótrúlegt,“ segir hún.

Heimasíða Vilborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert