Bresku fjölmiðlamennirnir Simon Cox og Helen Grady komu til Íslands á mánudag til að vinna að gerð útvarps- og sjónvarpsþáttar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið fyrir breska ríkisútvarpið, BBC.
Málið vakti strax athygli þeirra þegar þau heyrðu af því frá dr. Gísla Guðjónssyni réttarsálfræðingi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Við höfum unnið að þáttagerð um mörg erfið dómsmál en það sem vakti fyrst og fremst athygli okkar í þessu máli var þessi einstaklega langa einangrun sem sakborningar í málinu voru látnir þola meðan á rannsókn málsins stóð,“ segir Grady en hún líkir einangrun sakborninga við aðstæður fanga bandaríska hersins í Guantanamo-fangelsinu en Bandaríkin hafa verið gagnrýnd fyrir að halda meintum hryðjuverkamönnum í einangrun um lengri tíma í Guantanamo-fangelsinu.