„Þetta kom okkur að óvörum. Það rigndi gríðarlega þennan sólarhring. Myndast höfðu hengjur í því vonda veðri sem var þarna. Það kom okkur á óvart hversu hratt þetta gerðist og hversu stórt þetta var,“ segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri Bláfjalla, um snjóflóðið sem féll á skíðasvæðinu aðfaranótt fimmtudags. Hann segir að málið sé litið alvarlegum augum en bendir á að skíðasvæðið sé ekki á lista yfir þau svæði þar sem mest snjóflóðahætta þykir vera samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Flóðið féll á milli Tvíburalyftu og Gosa á suðursvæði Bláfjalla. Svæðið umhverfis skíðaskálann er ekki á hættusvæði.
Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að unnið hafi verið að skíðasvæðahættumati á síðustu árum en vinnu er einungis lokið við hættumat í Hlíðarfjalli á Akureyri og á skíðasvæðinu í Oddsskarði á Austurlandi. Þar segir jafnframt að undirbúningsvinna sé komin af stað fyrir flest þeirra níu skíðasvæða sem einnig eru til skoðunar. Í framhaldinu verður snjóflóðahætta metin á minni skíðasvæðum.
Þegar snjóflóðahætta er metin á skíðasvæðum er landsvæðið skoðað í meiri smáatriðum en á þéttbýlissvæðum vegna þess að hugsanleg upptakasvæði eru í mörgum tilfellum nálægt skíðaleiðum eða skíðalyftum. Til viðbótar við hættu á snjóflóðum af náttúrulegum orsökum þarf að hafa í huga hættuna á því að skíðamenn eða vinnutæki setji af stað snjóflóð í bröttum brekkum.
Auður Kjartansdóttir hjá Veðurstofunni segir að hættumati á skíðasvæðum megi skipta í tvennt. Annars vegar hættumat B og hins vegar hættumat C. Til glöggvunar er hættumat A notað yfir snjóflóðahættu í þéttbýli. Samkvæmt snjóflóðahættumati B er óheimilt að staðsetja skála sem gist er í að næturlagi, hafa upphafssvæði skíðalyftu á barna- og byrjendasvæði, eða raðasvæði á barna- og byrjendasvæði ef hætta er á snjóflóði.
Samkvæmt hættumati C er óheimilt að hafa byggingar þar sem gera má ráð fyrir viðveru fólks að næturlagi, þar sem upphafssvæði er fyrir skíðalyftu, þar sem fólk safnast saman og á barna- og byrjendasvæði.
Magnús segir að dagsdaglega sé mat á snjóflóðahættu alfarið í höndum starfsmanna skíðasvæðanna. „Við ýtum reglulega niður snjóflóðum. Við komumst með troðara að ofanverðu til þess að ýta niður hengjunum. Ef það er einhver minnsti vafi á því að hengjur séu fyrir ofan lyftur þá lokum við þeim,“ segir Magnús en grípa hefur þurft til þess sex sinnum á síðustu tveimur árum. Hann segir að Veðurstofan telji almennt ekki mikla snjóflóðahættu í Bláfjöllum þó vissulega sé hættan til staðar. „Ein af þeim kröfum sem munu koma er sú að það verði sérþekking á snjóflóðahættu inni á skíðasvæðunum. Svo vill til að Samtök skíðasvæðanna eru í samvinnu við Veðurstofuna og nú stendur til að starfsfólk fari á námskeið um snjóflóðahættu. Það hefst á mánudaginn og þar verða einstaklingar frá flestum skíðasvæðum á landinu,“ segir Magnús.