Helsti sérfræðingur Rússa í málefnum norðurslóða, Anton Vasiliev, verður næsti sendiherra Rússlands hér á landi. Þetta kemur fram á fréttavefnum The Arctic Journal og vísað í heimildir í utanríkisráðuneytum Íslands og Rússlands.
Vasiliev tekur við embætti af Andrey Tsyganov sem gegnt hefur því frá árinu 2010 en hann hélt af landi brott síðastliðinn fimmtudag samkvæmt fréttinni. Sama dag birtist kveðjugrein frá Tsyganov til Íslendinga í Morgunblaðinu. Fram kemur í fréttinni að Vasiliev hafi frá 2008 gegnt embætti sendiherra Rússlands í norðurslóðamálum og sé hæst setti embættismaður landsins í þeim málaflokki. Þannig hefur hann verið fulltrúi Rússa í Norðurskautsráðinu.
Samkvæmt heimildum fréttavefjarins hefur Vasiliev hlotið samþykki sem næsti sendiherra Rússlands á Íslandi og er búist við að hann afhendi trúnaðarbréf sitt hér á landi í lok apríl eða byrjun maí. Þá segir að Vasiliev njóti mikillar virðingar í Norðurskautsráðinu. Hann er með doktorsgráðu í hagfræði frá Vísindaháskóla Sovétríkjanna og hefur starfað í utanríkisþjónustu Rússlands frá árinu 1976.