Manni einum sem ætlaði að leigja snittvél til þess að laga lekavandamál var neitað um lán á vélinni í verslun sem hann fór í. Skýringin sem verslunin gaf var sú að meistarafélag pípulagningamanna hefði hótað versluninni því að hætta í viðskiptum við viðkomandi verslun ef þeir leigðu almenningi tækið.
Maðurinn undrar sig á þessari skýringu á facebooksíðu sinni og bendir á að það séu fleiri starfsstéttir sem nýti sér snittvél, til að mynda járnsmiðir, vélvirkjar, stálsmiðir og vélstjórar, en hann er sjálfur með réttindi sem járnsmiður og vélvirki. Vélin sé notuð til þess að vinna líka önnur efni en pípulagningarör og það sé því ótækt að ein starfsgrein hindri aðrar löggiltar starfsgreinar frá því að nota verkfæri sem henta við þá vinnu sem aðrir vinni við.
„Það skiptir ekki máli hver hlustar á hvern en lagnaverslanir eru farnar að taka þessum hótunum og það er nú svo komið að Lagnalagerinn selur ekki til almennings, einungis til pípara, Vatnsvirkinn og fleiri verslanir eru farnar að apa þetta eftir (...) Verslunin þar sem ég varð fyrir þessu er Byko og var starfsmaðurinn alveg miður sín að þurfa að koma svona fram við viðskiptamann sem kemur inn í sakleysi sínu til að leigja tæki,“ ritar maður á facebooksíðu sína.