Fjórðungur drekkur ekki gos

mbl.is/Hjörtur

Rúmlega fjórðungur þeirra, sem tóku þátt í rannsókn Landlæknisembættisins um heilsu og líðan Íslendinga, segist aldrei drekka sykrað gos. Þar af segjast 17,6% karla aldrei drekka gos og 34,8% kvenna. Um fimm prósent aðspurðra segjast drekka sykrað gos á hverjum degi, sem er fækkun frá því sem áður var, en árið 2007 var hlutfallið 7,8%.

Á vef Embættis landlæknis er komin út skýrslan Heilsa og líðan Íslendinga 2012 - Framkvæmdaskýrsla. Rannsóknin „Heilsa og líðan Íslendinga 2012“ byggist á viðamikilli póstkönnun sem var send til ríflega tíu þúsund Íslendinga á aldrinum 18 til 84 ára í lok októbermánaðar árið 2012.

Þar af hafði 3.676 manns verið fylgt eftir frá fyrstu rannsókn árið 2007 og 6.486 manns tilheyrðu nýju úrtaki 18-79 ára Íslendinga. Fjöldi svara var 6.783 og var svarhlutfallið því 67,2%.

Fleiri konur borða ávexti tvisvar á dag eða oftar

6,8% aðspurðra segjast borða ávexti eða ber sjaldnar en einu sinni í viku, þar af 9,9% aðspurðra karla og 3,7% aðspurðra kvenna. 8,3% aðspurðra segjast hins vegar borða ávexti eða ber einu sinni í viku og er það töluverð fækkun milli kannana, en árið 2007 var hlutfallið 9,2%. 

Þá vekur það athygli að 24,7% aðspurðra karla segist borða ber eða ávexti tvisvar til þrisvar sinnum í viku en aðeins 17,9% aðspurðra kvenna. 9,3% aðspurðra karla borða ávexti eða ber tvisvar á dag eða oftar, en hlutfallið hjá konunum er mun hærra, eða 24,6%.

Þá segir um eitt prósent aðspurðra að það borði aldrei ávexti eða ber.

Eldra fólkið borðar fisk oft í viku

Álíka margir borða fisk árið 2012 og 2007; 29% aðspurðra sögðust borða fisk einu sinni í viku en 51,2% aðspurðra sögðust borða fisk tvisvar til þrisvar sinnum í viku.

Athygli vekur að um 89% aðspurðra á aldrinum 67 til 79 ára segjast borða fisk tvisvar sinnum í viku eða oftar en á aldrinum 18 til 44 ára er hlutfallið í kringum 44%. Þar á milli er aldurshópurinn 45 til 66 ára en þar segjast um 69% aðspurðra borða fisk tvisvar í viku eða oftar.

Íslendingar eru nokkuð duglegir að fá sér morgunmat, að því er fram kemur í könnuninni, en 74% karla sem tóku þátt fengu sér morgunmat á hverjum degi, 84% kvenna.

Afstaða kynjanna til þess hversu sátt þau eru við eigin matarvenjur var nokkuð svipuð. 58% karla eru mjög eða nokkuð sátt við sínar matarvenjur en 54% kvenna.

Um 41 prósent kvenna, sem tóku þátt í könnuninni, sagðist jafnframt fá samviskubit þegar þær borðuðu sætindi. Næstum helmingi færri karlar fá slíkt samviskubit. 

mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert