„Við erum að taka þátt í markaðsátaki hjá sunnlenskum sveitarfélögum um leyndardóma Suðurlands,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis, í samtali við mbl.is en hætt var gjaldtöku að Geysissvæðinu í hádeginu í dag. Henni verður að sögn hans haldið áfram í fyrramálið.
„Eigum við ekki bara að segja að þetta hafi fallið svona vel saman,“ segir Garðar spurður hvort ákvörðunin tengist gagnrýni Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á gjaldtökuna en hann hafði lýst því yfir að hann ætlaði að mæta á svæðið eftir hádegi í dag og mótmæla henni. Hvatti hann aðra til þess að gera slíkt hið sama.
Spurður út í gagnrýni Ögmundar segist Garðar ekki skilja hana alveg. Víðar sé gjaldtaka að náttúruperlum án þess að hann hafi mótmælt henni. „Ég skil ekki þessa náttúruverndarstefnu hjá honum að telja það heppilegt að fólki sé hleypt óheft inn á pínulítið frímerki án þess að gerðar séu ráðstafanir og ráðstafanir kosta fjármuni. Það er óhjákvæmilegt.“
Frétt mbl.is: Gjaldtöku við Geysi hætt í hádeginu
Frétt mbl.is: Líkir gjaldtökunni við þjófnað