Viðbúið að annir verði miklar

Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingfundum á Alþingi fer óðum fækkandi og ljóst að miklar annir verða í þinginu það sem eftir lifir af þingstörfum. Engir þingfundir eru í dymbilviku eða um páskana og sveitarstjórnarkosningar í vor. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, telur engu að síður að hægt sé að ljúka þinginu með skikkanlegum hætti.

Rætt var við Einar K. í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar kom fram að frestur til að leggja fram ný þingmál rennur út á morgun. Einar segir flest benda til að þau mál sem boðuð hafa verið muni ekki verða lögð fram fyrir tilskilinn frest. Þá verði að koma í ljós hvort samstaða náist um að taka þau mál á dagskrá og ræða þau.

Mörg mál þarf að afgreiða sem kallast dagsetningamál en þau eru háð því að verða að lögum fyrir tiltekna dagsetningu. Einar segir að oftast nær hafi verið skilningur meðal þingmanna á að afgreiða þau á tilsettum tíma. Svo séu það stórpólitísk mál sem væntanlega þurfi að afgreiða einnig. Allt komi þetta til með að skýrast á næstunni.

Spurður út í það hvort til standi að halda sumarþing segist Einar K. ekki telja það. Það sé alla vega ekki sín ætlun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert