Íhuga flutning úr Borgartúninu

Stoppistöð við Borgartún
Stoppistöð við Borgartún mbl.is/Ómar

Mörg fyrirtæki í Borgartúni eru afar ósátt við þær breytingar sem gerðar hafa verið á götunni og íhuga sum þeirra jafnvel að flytja sig um set. Mikill skortur er á bílastæðum og eiga viðskiptavinir í miklum erfiðleikum með að sækja sér þjónustu fyrirtækjanna í götunni, að minnsta kosti þeir sem fara um á bíl.

„Það mætti segja að við værum lokaðir inni,“ segir Ámundi Óskar Johansen, rekstrarstjóri Veislumiðstöðvarinnar í Borgartúni 6. Hann og faðir hans hafa rekið mötuneyti og veisluþjónustu í langan tíma í Borgartúninu og segir hann að á þessum tíma hafi fjöldamörg fyrirtæki, jafnvel stórfyrirtæki, hafið starfsemi við götuna. Á sama tíma hafi borgaryfirvöld hins vegar fækkað bílastæðum og þrengt götuna umtalsvert.

230 milljóna króna framkvæmdir

Framkvæmdir hófust við Borgartúnið seinasta sumar en meðal annars voru aðskildir hjólastígar með einstefnu lagðir beggja vegna götunnar, gangstéttir voru endurnýjaðar, skipt var um ljósastaura og fjórum miðeyjum var bætt við til að auðvelda gangandi vegfarendum að fara yfir götuna. Áætlaður heildarkostnaður var um 230 milljónir króna.

Markmiðið með breytingunum var meðal annars að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda og gera Borgartúnið að fallegri nútímalegri borgargötu.

Strætó tefur umferð

Bent hefur verið á að nú, eftir breytingarnar, sé ekki lengur útskot að strætóstoppistöð við götuna. Strætisvagnar þurfi því að stoppa á miðri akrein til að taka upp eða hleypa út farþegum. Þetta tefji og stöðvi jafnvel umferð þegar strætisvagnar þurfa að nema staðar við strætóskýli Borgartúns.

Ámundi segir að eins og staðan sé í dag sé nánast ómögulegt að finna bílastæði við götuna, sér í lagi fyrir viðskiptavini. Þau séu aðallega notuð af þeim sem starfa hjá fyrirtækjunum.

„Fólk hreyfir sig ekki um set. Móðir mín vinnur til dæmis líka í Borgartúni en hún sér sér ekki fært að koma yfir til okkar því þá missir hún stæðið sitt og getur ekki fundið annað,“ bendir hann á.

Leggja bílnum langt frá vinnustaðnum

Margir þurfi jafnframt að leggja bílunum sínum langt frá vinnustaðnum. „Hjá okkur leggja sumir bílunum sínum fyrir framan Borgartún 20 til að ganga í vinnuna í Borgartúni 6,“ segir hann.

Hann segist hafa heyrt af því að forsvarsmenn nokkurra fyrirtækja séu farnir að íhuga það alvarlega að flytja sig um set. Ástandið sé óþolandi.

„Ég er mjög hlynntur því að gatan sé fegruð, eins og markmiðið var, en það þarf að hafa einhverja framtíðarsýn í huga. Það er ekki hægt að byrja bara á hjólunum og spá síðan í bílana einhvern tímann seinna,“ segir hann.

„Ég er búinn að vera lengi í Borgartúninu og tel að það sé ekki meirihluti sem hjólar í vinnuna, frekar stór minnihluti.“

Aðeins eitt bílastæðahús við götuna

Hann segir enn fremur að fyrir helgi hafi verið komið fyrir stöðumæli fyrir utan Borgartún 6 og í dag hafi strax verið byrjað að rukka. „Þeir eru byrjaðir að rukka og gatan er ekki einu sinni tilbúin,“ nefnir hann. Enn sé mikið verk fyrir höndum.

Að sögn Ámunda er aðeins eitt bílastæðahús við götuna en það er bílastæðakjallarinn í Höfðatorgi. Mikil þörf sé á bílastæðum við götuna og er lítið sem ekkert að frétta af öðru bílastæðahúsi, sem áform voru uppi um að reisa í Borgartúninu. „Þetta er allt mjög undarlegt,“ segir hann.

mbl.is/ÞÖK
Bílastæðaplan við Advania.
Bílastæðaplan við Advania. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert